143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

innflutningur landbúnaðarafurða.

539. mál
[16:28]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa áhugaverðu fyrirspurn. Það er rétt, sem kom fram í máli hv. þingmanns, að sú meginregla er um allan heim, sérstaklega hinn vestræna, að menn hafa sett talsvert mörg höft á viðskipti með matvæli og hafa á liðnum áratugum notað ýmsar aðferðir til að greiða niður matvæli sem gerir að verkum að kannski er erfitt að tala um frjálsa verslun með matvæli á milli landa. Ég vil þó segja það hér að á Íslandi er í gildi mjög frjálslynd stefna er varðar tolla miðað við önnur lönd, til að mynda Evrópusambandið.

Það er líka rétt að nefna það hér að það sem hv. þingmaður benti á, að áður fyrr hefði innflutningur verið mun frjálsari, er rétt, hann var það. Menn fluttu inn einstaka lifandi gripi og hráar vörur, húðir og annað í þeim dúr, sem því miður fluttu með sér verulega sjúkdóma sem við erum að berjast við enn þann dag í dag í íslenskum búfjárkynjum með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið allt og vandræðum, jafnvel sjúkdómum hjá fólki. Í umræðunni síðustu ár, vegna umræðu um Evrópusambandið, hefur verið rætt um að við innflutning á lifandi dýrum, í skýrslum sem gerðar hafa verið, séu 100% líkur á að hingað berist sjúkdómar sem við höfum ekki í dag með tilheyrandi kostnaði og vandræðagangi. Þá mundum við kannski fara að tefla í tvísýnu þeim gæðum sem við höfum hvað varðar framleiðslu íslenskra matvæla eins og hún er í dag þannig að við verðum að fara varlega.

Varðandi spurningar þingmannsins um hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir auknum skyrkvóta á erlendum mörkuðum og bjóða kvóta á hvítu kjöti í staðinn þá er því til að svara að íslensk stjórnvöld hafa um alllangt skeið átt í tvíhliða viðræðum við ESB um gagnkvæm viðskipti með landbúnaðarvörur. Standa vonir til þess að þeim viðræðum ljúki á næstu mánuðum. Í samningaviðræðum sem þessum þarf að greiða fyrir aukinn markaðsaðgang, hvort heldur það er skyr eða einhver önnur afurð, og því er líka ljóst að Evrópusambandið hefur sínar væntingar um bættan markaðsaðgang til Íslands. Sumar þessara vara eru viðkvæmari en aðrar en vissulega kemur hvítt kjöt til álita ásamt öðrum vörutegundum. Ég vil þó segja að markmiðið með slíkum gagnkvæmum samningum hlýtur að vera það að gagnkvæmnin verði innan greinanna í meira mæli en áður var. Þannig má hugsa sér að bæði sé hægt að flytja hvítt kjöt inn og út, svo að dæmi sé tekið. En það sem við erum að ræða við Evrópusambandið núna eru verulegar breytingar frá því sem við höfum þekkt.

Varðandi það hvort ráðuneytið sé að einfalda fyrirkomulagið á innflutningi landbúnaðarafurða er því til að svara að það kom vissulega til álita, bæði í anda einfaldara regluverks, sem er á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar, til dæmis með rafrænum umsóknum og öðru slíku, og eins auðvitað til að flýta og einfalda umfjöllun innan ráðuneytisins og undirstofnana þess. Þá vil ég einnig segja við þetta tækifæri að það á alltaf og stöðugt að vera til skoðunar að bæta þau kerfi sem stjórnsýslan er með til hagsbóta fyrir neytendur og fyrir þá sem þurfa að sæta þeirri stjórnsýslu.

Að lokum er spurningin hvort aðgengi íslenskra neytenda að erlendum landbúnaðarvörum verði aukið frá því sem nú er. Því er til að svara að ef tekst að ljúka umræddum samningum við Evrópusambandið er ljóst að tollar verða felldir niður af mjög mörgum landbúnaðarvörum og verður um gagnkvæmni að ræða gangi þetta eftir. Hugmyndin er sú að einungis yrðu upplistuð þau tollskrárnúmer sem eftir munu standa með tolla, sem er svokallaður neikvæður listi, hann verður reyndar mun styttri en hinn þar sem tollar verða felldir niður.

Vil ég þó biðja menn að átta sig á því að þó svo að samningar muni nást á þessu ári, og eru miklar líkur til þess að það gerist jafnvel á næstu mánuðum, eru líkur á að þeir komi ekki að fullu til framkvæmda fyrr en að minnsta kosti að tveimur árum liðnum þar sem ferlið innan Evrópusambandsins sérstaklega er fremur þungt í vöfum.