143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

innflutningur landbúnaðarafurða.

539. mál
[16:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með síðasta hv. þingmanni, auðvitað er full ástæða til að kanna það að hærra afurðaverð sé til bænda í Póllandi þrátt fyrir að það hafi gerst aðili að Evrópusambandinu. Það gæti kannski verið ástæða til að endurmeta eitthvað hagsmunamatið í landbúnaðinum.

Ég kveð mér hér hljóðs fyrst og fremst til að lýsa þeirri skoðun minni að tollverndin, einkanlega í hvíta kjötinu, sé fyrst og fremst misskilningur. Þar gilda engin heilbrigðissjónarmið. Hér hefur verið seldur sýktur kjúklingur lengi og kjúklingaframleiðendur hér hika ekkert við að flytja inn erlendan kjúkling og selja okkur sem íslenskan. Þar er ekki verið að verja hefðbundið íslenskt fjölskyldubú heldur einfaldlega iðnaðarframleiðslu hér á höfuðborgarsvæðinu, sem oftar en ekki er í eigu fjármálastofnana en ekki bænda, sem tilgangur tollverndarinnar hefur verið að vernda. Það á því að draga (Forseti hringir.) hratt og vel úr þeirri tollvernd og best væri það gert með því að gerast bara aðili að Evrópusambandinu.