143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

innflutningur landbúnaðarafurða.

539. mál
[16:38]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa málefnalegu umræðu. Nokkur viðbrögð við þeim ábendingum sem komu fram hjá hv. þingmönnum.

Varðandi það sem hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir nefndi að í sjálfu sér kæmi ekkert í veg fyrir að afnema tolla einhliða til að auka samkeppni þá hvet ég þingmanninn til að skoða brauðmarkaðinn, verð á brauði á Íslandi. Hingað eru fluttar inn kökur sem eru tilbúnar, verð á þeim er mjög sambærilegt og í öðrum löndum, engir tollar á þeim. Engir tollar eru á ávöxtum. Ef hv. þingmaður var að vísa til kartöfluflagna — og af því að ég heyrði í gær að verið var að ræða um að ekki væri nauðsynlegt að lita á sér hárið, það væri ekki forgangsverkefni — þá væri það nú heldur ekki forgangsverkefni í lýðheilsu að fara að breyta sérstaklega verðlagi á kartöfluflögum. En ég er hins vegar sammála því að allt eigum við að skoða sem er skynsamlegt að bæta.

Að hærra verð sé til bænda, til dæmis í Póllandi, hvað varðar sauðfjárafurðir þá held ég að hv. þm. Helgi Hjörvar hafi misskilið það. Það sýnir sig náttúrlega hvað best hvað íslenskt landbúnaðarkerfi getur framleitt ódýra vöru fyrir neytendur á Íslandi, en það geta þeir greinilega ekki í Evrópusambandinu. Og varðandi þær rangfærslur sem hv. þingmaður kom með til þeirra sem stunda ræktun á hvítu kjöti, þá er það auðvitað aldeilis fráleitt að halda því fram að það sé sama framleiðslan hér og í Evrópusambandinu. Hingað eru að koma aðilar frá Bretlandi til að skoða það hvernig við verjumst kampýlóbaktersýkingum í kjúklingum þar sem við höfum náð frábærum árangri og getum selt þá hér, og við getum þess vegna grillað að stærstu leyti alla kjúklinga sem hingað koma (Gripið fram í.) því að þeir fara ekki á markað á Íslandi nema þeir séu búnir (Forseti hringir.) að fara í gegnum salmonellutékk og það er engin kampýlóbakter í þeim. Þess vegna eru tilfelli matarsýkinga á Íslandi með því lægsta sem til er í heiminum. (Forseti hringir.) Það er vegna þess að heilbrigðisástandið á hvítu kjöti á Íslandi er betra og jafnvel mörgum sinnum betra en víðast hvar í Evrópusambandinu, þannig að þetta var rangt hjá hv. þingmanni (Forseti hringir.) og ég hvet hann til að skoða þetta.