143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

hvalveiðar.

541. mál
[16:44]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Björt Ólafsdóttur fyrir áhugaverða fyrirspurn og tek undir þau orð hennar að mikilvægt sé að við getum tekið málefnalega umræðu og, eins og einhverjir hafa verið að kalla eftir, kalt hagsmunamat. Það er auðvitað sérkennilegt að nefna Bandaríkin í því samhengi sem veiða hval sambærilegan við langreyði í sennilega tíföldu magni miðað við það sem við veiðum, fyrir utan stórfelldar veiðar þeirra eða hvernig þeir hafa, því miður, kannski ekki verið að veiða til manneldis, hvernig höfrungar hafa drepist í stórum stíl við túnfisksveiðar þeirra, sérstaklega hér á árum áður, hvernig ameríski herinn við rannsóknir sínar á djúpsprengjum veldur því að það drepst margfaldur sá fjöldi hvala og hér er veiddur. En spurningar hv. þingmanns sneru reyndar ekki að þessu og ég ætla að svara þeim.

Varðandi leyfin sem hafa verið gefin út frá 2006 til veiða á langreyði annars vegar og hrefnu hins vegar hafa verið gefin út tvö veiðileyfi til langreyðarveiða í atvinnuskyni frá árinu 2006. Árið 2006 var gefið út eitt leyfi sem gilti til eins árs og síðan voru engar langreyðarveiðar árin 2007 og 2008 þannig að engin leyfi voru gefin út þau ár. Það var síðan árið 2009 sem gefið var út eitt leyfi á Hval hf. til fimm ára sem gilti til loka árs 2013. Árið 2006 var gefið eitt leyfi út til hrefnuveiða í atvinnuskyni. 2007 og 2008 voru gefin út þrjú leyfi til hrefnuveiða í atvinnuskyni. Árið 2009 voru gefin út þrjú leyfi til hrefnuveiða í atvinnuskyni til fimm ára sem giltu til ársloka 2013. Árið 2010 voru síðan gefin út þrjú leyfi til hrefnuveiða í atvinnuskyni og árin 2011 og 2012 voru hvort ár gefin út tvö leyfi til hrefnuveiða í atvinnuskyni.

Einnig er spurt hvert hefur verið árlegt heildarútflutningsverðmæti afurða hvorrar tegundar frá árinu 2006. Samkvæmt nýjustu tölum frá Hagstofu Íslands er samanlagt heildarútflutningsverðmæti hvalaafurða frá árinu 2006 til ársins 2014 rúmir 4 milljarðar, eða 4.050.471.962 kr. Veiðar á langreyði voru stundaðar í litlum mæli árið 2006, en þá voru aðeins veidd sjö dýr. Veiðar á langreyði voru síðan stundaðar á árinu 2009, 2010 og 2013 en ekki á öðrum árum. Ekki var mögulegt að fá sundurgreiningu á fjárhæðinni miðað við tegundir. Jafnframt voru seldar hrefnuafurðir á innanlandsmarkaði fyrst og fremst þessi ár.

Heildarútflutningsverðmæti sundurgreint eftir árum er að 2006 var fob-verðið 325.000, á árinu 2008 voru það tæpar 95 milljónir, á árinu 2009 voru það 5.000–6.000 kr., á árinu 2010 var fob-verðið tæpar 1.300 milljónir, á árinu 2011 var það rúmlega 1.200 milljónir, á árinu 2012 voru það 1.270 milljónir og á árinu 2013 voru það 157.000 kr.

Þá var að lokum spurt hversu mikið sé greitt í ríkissjóð vegna hvalveiða, t.d. í formi veiðigjalda. Tekjur ríkissjóðs vegna hvalveiða eru fyrst og fremst í formi skatttekna og tekna vegna eftirlits hins opinbera sem framkvæmt er í tengslum við veiðarnar. Hins vegar hafa engin veiðigjöld verið innheimt af veiðunum til þessa, en það er til skoðunar til samræmis við aðra sjálfbæra nýtingu af stofnum í hafinu.

Ekki eru tiltækar upplýsingar í ráðuneytinu varðandi tekjur sem til komnar eru vegna skattlagningar á einstök fyrirtæki, en heildartekjur vegna þess eftirlits sem framkvæmt hefur verið af Matvælastofnun frá árinu 2010 til loka árs 2013 eru 4.686.000 kr.