143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

hvalveiðar.

541. mál
[16:50]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að brydda upp á þessu og fyrir þetta kalda hagsmunamat sem vissulega skiptir líka máli í umræðunni.

Innan ramma hins kalda hagsmunamats langar mig til að benda á hagsmuni, beinharða hagsmuni, sem voru nefndir af hv. málsflytjanda, ferðaþjónustunnar. Þeim gestum sem fara í hvalaskoðun fjölgar um 20% milli ára. Mér þóttu þær tölur sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þuldi upp í fob-verði útflutnings á hvalakjöti ekki ýkja merkilegar í samanburði við þær tekjur sem hvalaskoðunarfyrirtækin hafa. Fulltrúar hvalaskoðunarfyrirtækjanna, þaulreyndir sjófarendur sem þekkja sín farvötn mjög vel, lýsa því hvernig þeim hefur gengið erfiðar og erfiðar að ná til hvala til skoðunar. Þeir bera því við að þeir muni horfa fram á tap í rekstri sínum út af þessum hvalveiðum. Þar erum við að ræða um umtalsvert stærri tölur en þá þúsundkalla sem taldir voru upp í fob-verði rétt áðan.