143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

framtíðarfyrirkomulag innanlandsflugs.

400. mál
[16:59]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég beini hér fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra um framtíðarstaðsetningu innanlandsflugsins. Það er auðvitað mál sem mikið hefur verið rætt, bæði á vettvangi sveitarstjórnarinnar hér í Reykjavík, kannski ekki síst, og eins hér í þinginu og í fjölmiðlum. Nú ber svo vel í veiði að við Reykvíkingar eigum, sem sjaldgæft er, ráðherra samgöngumála og við það bætist að ráðherrann er sömuleiðis gjörkunnugur skipulagsmálum í Reykjavík sem fyrrverandi borgarstjóri hér í borginni. Fram er komin hagfræðiúttekt á hagrænum áhrifum af fjórum mismunandi útfærslum á framtíðarstaðsetningu innanlandsflugsins, einni þar sem gengið er út frá því að sú staðsetning sé í Keflavík, í einni að hún sé á Hólmsheiðinni, í einni á Lönguskerjum og í einni er gert ráð fyrir áframhaldandi staðsetningu innanlandsflugs í Vatnsmýrinni.

Capacent gerir þessa úttekt og virðist vera tugmilljarða munur á því hvaða leið valin er. Ég hygg að það séu um 45 milljarðar sem muni á kostnaðarmati á einstökum útfærslum. Það eru auðvitað verulegir fjármunir sem má nýta til þess að bæta þjónustu og hækka þjónustustig við landsmenn, annaðhvort á þessu sviði eða að öðru leyti eða að bæta að einhverju leyti fyrir það sem einhverjir kunna að missa við breytingar.

Ég vildi þess vegna fyrst og fremst spyrja ráðherrann um mat hennar á úttektinni. Telur hæstv. ráðherra að þetta sé trúverðug úttekt og niðurstöður? Sömuleiðis vildi ég spyrja um sýn hennar á þá helstu valkosti sem verið hafa í umræðunni. Útilokar hæstv. ráðherra einhvern af þeim valkostum sem nefndir hafa verið eða telur hún einhvern þeirra mjög ólíklegan sem framtíðarkost í staðsetningu innanlandsflugsins? Með hvaða hætti hyggst hæstv. ráðherra vinna að því að meta þá valkosti sem þarna eru fyrir hendi og þróa umræðuna áfram sem samgönguráðherra og marka stefnu um málið?