143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

framtíðarfyrirkomulag innanlandsflugs.

400. mál
[17:09]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég ítreka þakkir vegna umræðunnar og bendi á það sem kom reyndar fram í máli beggja þeirra hv. þingmanna sem hér hafa talað að þetta mál er málefni bæði borgar og annarra byggða í landinu og á ekki að stilla upp sem einhverjum andstæðum sjónarmiðum höfuðborgarsvæðisins og hinna dreifðu byggða vegna þess að völlurinn skiptir okkur öll máli. Það kom svo glöggt fram í þeirri félagshagfræðilegu úttekt sem gerð var hversu miklu máli innanlandsflugvöllur í eða við Reykjavík skiptir byggðirnar um allt land.

Ég tek líka undir það sem hér var nefnt varðandi þá þætti sem lúta að þessu samkomulagi, það er hárrétt, eins og kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar hvað það varðar að ákveðnir hlutir — og það var einmitt það sem samkomulag ríkis og Reykjavíkurborgar gekk út á.

Spurt var hvort menn mættu nú endurnýja húsakostinn. Já, miðað við þetta samkomulag. Menn muna að á síðasta kjörtímabili var gert hér samkomulag um heimild til ákveðinna umbóta á húsnæðinu við Reykjavíkurflugvöll sem er, alveg eins og hv. þingmaður bendir á, auðvitað komið til ára sinna og orðið um margt algjörlega óviðunandi, bæði fyrir farþega og atvinnustarfsemi. Gert var samkomulag milli þáverandi ríkisstjórnar og meiri hlutans í Reykjavík um heimild til uppbyggingar þar. Sú uppbygging hefði orðið næsta ómöguleg ef ekki hefði náðst samkomulag við Reykjavíkurborg um framlengingu með tveimur brautum á þeim tíma sem völlurinn getur verið í Vatnsmýrinni.

En varðandi flugið sem tengist færeysku vélunum eða Færeyingum þá er það í skoðun núna hjá Isavia. Reykjavíkurborg hefur vegna skipulags síns alltaf haft nokkrar áhyggjur af stærð véla sem lenda á vellinum með reglulegu millibili. Það ræðst bara af öryggisþáttum hér í miðborginni og getu vallarins til að taka við slíkum flugvélum. En ég veit að það er í skoðun hjá Isavia og endanlegt svar á að koma innan tíðar. Ég skal tryggja það að þingið verði upplýst um það þegar þar að kemur.