143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[17:34]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að ég og hv. þingmaður séum nokkuð sammála um þá þætti er tengjast einkaframkvæmd og aðkomu einkaaðila að því. Ég tek undir það með hv. þingmanni að þær leiðir sem nefndar voru, aðrar leiðir inn í höfuðborgina og inn á höfuðborgarsvæðið — til umræðu hefur ekki verið að taka upp gjaldtöku á þeim svæðum, enda mundi það ekki samræmast fullkomlega þeim hugmyndum sem ég nefndi áðan um að almenningur hafi annan valkost. Það hefur því ekki verið til umræðu.

Varðandi Dýrafjarðargöngin og áætlaðan heildarkostnað í því samhengi eru það 8–9 milljarðar og líkt og ég kom inn á í ræðu minni áðan er alls gert ráð fyrir að um 1,3 milljörðum verði varið til framkvæmda við höfnina við Landeyjahöfn.

Mig langar að nýta það sem eftir er af andsvari mínu til að ræða það sem hv. þingmaður kom inn á, sem er ferjukostur og staða Herjólfs í því samhengi. Það hefur auðvitað legið fyrir og þegar hefur farið fram útboð vegna hönnunar á ferjunni, þeir þekkja það betur sem sátu á þingi á síðasta kjörtímabili, að komið var að ákveðnum lokapunkti í því verkefni þegar yfir okkur skall ákveðið efnahagsástand sem varð þess valdandi að þáverandi stjórnvöld ákváðu eðlilega að bíða með verkefnið. Þess vegna er farið í gang útboð vegna hönnunar á ferju og við eigum von á að það klárist og taki ekki of langan tíma. Ég þori ekki að fullyrða nákvæmlega hvenær verkefninu verður lokið eða hvort Vestmannaeyingar geta vænst þess að ný ferja verði komin á þessu kjörtímabili. Ég vil hins vegar árétta það, vegna þess að við erum að tala um einkaframkvæmd, að smíði á slíkri ferju er eitt af þeim verkefnum sem hefur verið nefnt sem hugsanlegur kostur í einkaframkvæmd og einhver kostur sem sumir telja að gæti verið farsæll þegar við erum að skoða aðkomu annarra en einungis hins opinbera að þáttum er tengjast uppbyggingu í samgöngumannvirkjum okkar.