143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[17:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna.

Það eru tvö atriði sem ég vildi til að byrja með fá að spyrja hv. þingmann um. Annað er það sem kom fram hjá hæstv. ráðherra í andsvörum eftir framsögu hennar og varðar nýjan Herjólf. Ég spurði ráðherrann hvað liði því verkefni að tryggja nýtt skip í Landeyjahöfn vegna þess að upphaflega átti nýtt skip að koma með höfninni en var hætt við það vegna efnhagsáfallanna eða því frestað öllu heldur. Auðvitað er mjög brýnt að fá skip sem betur hæfir höfninni og getur siglt á milli fleiri daga en nú er. Þá nefndi ráðherrann að það væri til skoðunar sem eitt af mögulegum einkaframkvæmdarverkefnum. Ég vil inna hv. þingmann eftir því hvernig sú hugmynd hugnaðist henni, bæði sem fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra og sem þingmaður kjördæmisins.

Eins vil ég fá að nota tækifærið og spyrja hana um þau orð sem hún hafði um einbreiðar brýr og þá samstöðu sem virðist vera í kjördæminu um að forgangsraða því að fækka þeim. Hún nefndi 20 brýr. Alltaf undrar mig nokkuð hversu lengi við ætlum að vera að því að leysa úr þessu verkefni. Eru þetta mjög kostnaðarsamar framkvæmdir, þær einbreiðu brýr sem eftir eru í Suðurkjördæmi?