143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[18:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Ég held að hér í þinginu sé rík og góð samstaða um að bæta þurfi samgöngur við Vestmannaeyjar, efla þær og styrkja frá því sem nú er og það sé sjálfsagt að leita leiða til þess að flýta næsta stóra áfanga sem í því þarf að vera, sem er nýtt skip í höfnina, með því að skoða leiðir í fjármögnun aðrar en þær hefðbundnu sem við höfum einkum notast við hingað til.

Hér varð óvænt örlítið framhald á umræðum um staðsetningu innanlandsflugs sem var á dagskrá á fyrirspurnafundi fyrr í dag, og þingmaðurinn lýsti því yfir að hægt væri að taka við innanlandsfluginu á Suðurnesjunum án mikils viðbúnaðar. Hvaða rök sér þingmaðurinn helst fyrir því að hafa höfuðstöðvar innanlandsflugsins í Keflavík? Telur hún að það mundi greiða fyrir ferðaþjónustu úti um landið í því að fá ferðamenn beint um Leifsstöð að utan og út á land, greiða fyrir ferðum fólks á landsbyggðinni heiman að frá sér og til útlanda, og sér hún möguleika á því að bæta enn frekar samgöngur milli Reykjanesbæjar og Reykjavíkur, greiða þá leið enn frekar til þess að gera þetta að fýsilegri kosti?