143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[18:15]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á samgöngumálum og raunar líka snjómokstri og vegþjónustu á Vestfjörðum. Það hefur um langt árabil verið til vansa hvernig búið hefur verið að Vestfirðingum í samgöngumálum. Að vísu var ráðist í metnaðarfulla gangagerð þar fyrr á árunum en það tók allt of langan tíma að koma samgöngum til Ísafjarðar í sæmilegt horf og sömuleiðis eru suðurfirðirnir í allt annað en viðunandi stöðu.

Hv. þingmaður gerði athugasemdir við það sem fram kemur á síðu 39 í þingsályktunartillögunni og lýtur að stöðunni við lagningu vegarins til Patreksfjarðar um Gufudalinn, eða Teigsskógarmálið sem svo hefur verið kallað. Í þingsályktunartillögunni er sagt að það mál sé í pattstöðu og þingmaðurinn vísar því til umhverfis- og samgöngunefndar að greina þá stöðu mjög vel. Telur þingmaðurinn ástæðu til að ætla að þetta sé rangt, að málið sé ekki í pattstöðu eða að hægt sé að grípa til einhverra ráðstafana til að breyta þessari stöðu og gera mögulegt að ráðast í framkvæmdir fyrr en ella? Eða hvað á þingmaðurinn við þegar hann er að vísa til orðalagsins um pattstöðuna í því málefni sem hér liggur fyrir?