143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[18:17]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Ég er ekkert að efast um orð þingsályktunartillögunnar, sem hér standa, um pattstöðu. Það sem ég er að óska eftir er að umhverfis- og samgöngunefnd greini stöðu málsins, af því að ég veit hug hæstv. innanríkisráðherra og áhuga hennar á að flýta vegagerð á þessari leið, og leiti leiða til að brjótast út úr þeirri stöðu sem þessi veglagning er í.

Ég kann ekki svörin við því, ég hef ekki greint þessa stöðu, ég hef bara ákveðnar upplýsingar uppi í þeim efnum. En ég tel það verðugt verkefni fyrir umhverfis- og samgöngunefnd þegar hún fjallar um þingsályktunartillöguna að snúa sér að því að leita leiða og standa þá með hæstv. innanríkisráðherra í því að flýta þessari framkvæmd þannig að við komumst í hana sem fyrst eða í beinu framhaldi af því að við verðum að komast út úr framkvæmdum við þverun Kjálkafjarðar og fleiri leiða.

Þingmaðurinn hefur áhyggjur af samgönguleysi á Vestfjörðum og ég nefndi það í ræðu minni en hnykkti ekki á því frekar að mikilvægt er að kanna möguleika á að flýta Dýrafjarðargöngum líka. Á sunnanverðum Vestfjörðum og reyndar á Vestfjörðum öllum eru ágætir möguleikar á verulegri atvinnuuppbyggingu á næstu árum í fiskeldi, og er það þegar hafið. Til að fylgja þeim jákvæða sprota eftir þyrftum við að ná stærri áföngum og hraðar og fyrr í samgöngumálum.