143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[18:26]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það virðist sem það dragi saman með okkur, hvorum á sínum enda pólitíska litrófsins.

Þetta þurfa ekki að vera gróðafyrirtæki vissulega en þá spyr ég hvort þetta megi ekki bara vera á opinberri hendi og lúta hinu lýðræðislega aðhaldi sem þingið hefur og við hér í þessum sal þegar við mótum samgönguáætlunina. Framkvæmdir séu þar af leiðandi ekki bundnar til lengri tíma í samningum við einstaka fyrirtæki heldur séu mótaðar hér í samgönguáætlun beinlínis og taki þá breytingum.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að við þurfum að endurskoða tekjustofna til vegagerðar. Þar er ég alveg hjartanlega sammála, það gefur augaleið að metanbílar og rafbílar slíta vegakerfinu engu minna en dísil- eða bensínbílar. Það er einmitt í þessu breytta umhverfi sem við þurfum að skoða tekjustofnana og ekki þá til lækkunar heldur til að taka inn aðra bíla og aðrar tegundir ökutækja og farartækja sem slíta mögulega vegakerfinu, ekki til að lækka þá tekjustofna á aðra eða annað slíkt heldur til að hækka þá til eflingar vegagerð, til eflingar jarðgangagerð og til eflingar framkvæmda á vegum hins opinbera til að gera byggð í þessu landi mögulega og betri og búsældarlegri.

Mig langar til að spyrja að einu enn fyrst ég hef þetta augnablik hér með hv. þingmanni: Með Gufudalsmálið og veginn þar, hvaða lausn sér hv. þingmaður í því máli, út úr þeirri pattstöðu? Hann kom vissulega inn á það áðan að hann hefði engin svör í málinu en ég er að velta því fyrir mér sérstaklega hvernig hann horfði til náttúru svæðisins, þ.e. Teigsskógs og náttúru svæðisins, hvernig hann sjái fyrir sér framtíðarlausnina út frá hagsmunum náttúrunnar á þessum stað.