143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[18:33]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir þessa ágætu samgönguáætlun. Hér kennir margra grasa og margt er afar vel gert. Eins og gengur er auðvitað annað sem manni finnst að mætti betur fara en þannig er það nú þegar fjármagnið er takmarkað, þá þurfum við líka að forgangsraða og mikilvægt er að það sé gert rétt. Við verðum kannski seint sátt um slíka forgangsröðun.

Mig langar að byrja á því að ræða almenningssamgöngur. Ég legg ríka áherslu á það við innanríkisráðherrann að við náum góðri sátt um almenningssamgöngur við sveitarfélögin og fólkið í landinu, að flugið og ferjurnar verði hluti af almenningssamgöngum finnst mér líka mjög mikilvægt og að því góða starfi sem hefur verið byggt upp á undanförnum árum verði haldið áfram. Við sjáum aukinn farþegafjölda í héruðunum; hann margfaldast frá ári til árs. Það segir allt um hvað kerfið er gott að fólkið vill nýta sér það.

Ég ætla reyndar að halda mig mest við hafnarframkvæmdir en vil þó taka undir það sem hér hefur komið fram varðandi vegabætur, auðvitað alls staðar á landinu en ekki síst í Suðurkjördæmi, í austurhlutanum, þar sem eru margar einbreiðar brýr sem eru löngu komnar á tíma og margar aðrar vegabætur sem þarf að fara í. Ég ætlaði svo sem ekki að eyða mínum tíma í það núna en tek bara undir það sem hér hefur verið sagt og veit það líka að það er verið að reyna að gera eins mikið í því og hægt er.

Mig langar að minnast á innsiglinguna í Höfn í Hornafirði. Það er mikilvægt að tryggja fé í rannsóknir á innsiglingunni á næstu árum. Áætlunin er að dýpka hana úr 9 metrum í 11. Uppsjávarveiði er orðin aðaltekjulindin á Höfn eins og mörgum öðrum höfnum við suðurströndina þar sem loðna og makríll eru orðin uppistaðan í aflanum og gríðarlega stór og öflug veiðiskip, uppsjávarskip, sem ferðast um hafnirnar, kalla á meira dýpi. Það er því mjög mikilvægt. Það er auðvitað kostur að útgerðirnar kaupi sér grunnristari skip en það felast líka mikil tækifæri í því eins og á Hornafirði ef hægt er að auka dýpi í 11 metra. Þar eru líka lagðar 20 milljónir í rofavörn í suðurfjörðum. Það er líka mikilvægt og kemur sér vel.

Í Vík í Mýrdal er árið 2015 gert ráð fyrir 17,5 milljónum í sjóvarnargarðinn. Það er afar brýn framkvæmd. Ég hef heyrt í mönnum þar að þeir telja jafnvel að þetta komi heldur seint en við skulum vona að garðurinn sem er haldi. Hann hefur sýnt það og sannað að hann hefur gert sitt gagn.

Ég vil aðeins staldra við í Vík. Þar er líka torfær vegur um Gatnabrún, Mosaskarð og Skarphól, um það bil 12 km kafli sem er nánast eini fjallvegurinn á leiðinni frá Höfn til Reykjavíkur eða að Hveragerði. Sveitarfélagið þar hefur samþykkt í tveimur kosningum og nýlegu aðalskipulagi að gera göng um Reynisfjall. Ég velti fyrir mér hvort það sé ekki gott tækifæri til einkaframkvæmdar í framtíðinni. Þar er gríðarleg umferð, þar er jafn mikil umferð og í væntanlegum Vaðlaheiðargöngum, þ.e. um það bil þúsund bílar á sólarhring, en framkvæmdin er um 10% af því sem þau kosta. Það er því afar hagkvæm framkvæmd og forvitnilegt verður ef við getum skoðað það.

Landeyjahöfn fær 1,3 milljarða á næstu þremur árum. Reyndar verða teknar, ef ég man rétt, 70 milljónir á þessu ári. Það er auðvitað jákvætt við þessa áætlun að fara á í líkanatilraunir með höfnina. Það er mjög gott mál. Ég fagna því sérstaklega. Ég held og tek undir með mjög mörgum Vestmannaeyingum að ný ferja mun ekki koma fyrr en höfnin fer að virka almennilega. Þetta er frábær samgöngubót. Höfnin er búin að sýna og sanna það að þegar hún er opin er hún gríðarleg samgöngubót og mikil þægindi fyrir Vestmannaeyinga að geta farið þarna um.

Ég tek undir það að Herjólfur sé upplagt verkefni í einkaframkvæmd og þá með aðkomu sveitarfélagsins í Vestmannaeyjum og jafnvel nágrannasveitarfélaga og stóru fyrirtækjanna á svæðunum. Ég held að það væri góður kostur.

Í höfninni í Þorlákshöfn eru gríðarlegir möguleikar. Þar hafa menn verið að skoða tækifæri við að gjörbylta höfninni eins og hún er með því að dýpka frá Skarfagarði að Suðurvarabryggju. Þar fyrir innan er grunnt og þyrfti að moka upp nokkru magni af efni. Með því og að taka norðurgarðinn í burtu mætti koma allt að 200 metra skipum inn í Þorlákshöfn, sem væri gríðarleg framför og mundi gjörbylta allri aðstöðu í þessari höfn fyrir ótrúlega lítinn pening. Þar hafa menn verið með mikla drauma um byggingu stórskipahafnar, en það er bara þannig að það eru ekkert mjög mörg skip að koma til Íslands sem eru yfir 200 metrar. Þarna eru því mikil tækifæri. Það eru mikil tækifæri í Þorlákshöfn sem við þurfum að skoða mjög vel og ég legg til að innanríkisráðherra skoði það á næstunni með heimamönnum hvernig hægt verði að koma að því verkefni fljótlega.

Ég verð að lýsa vonbrigðum yfir því að það er ekkert fé í Grindavíkurhöfn þar sem er mikil þörf á endurnýjun og dýpkunum. Þar hefur verið vinna í gangi og er vonandi að úr því rætist.

Það er nokkurt fé lagt í Sandgerðishöfn við endurbyggingu Suðurgarða um 150 metra kafla. En ég harma að enginn peningur er lagður í Helguvík. Á undanförnum árum hefur verið óskað eftir því að Reykjanesbær fái fé í Helguvík. Ég gerði mér satt best að segja vonir um að einhver peningur yrði lagður í það verkefni núna en svo er ekki. Það vantar um það bil 3 milljarða í þá framkvæmd, sem sveitarfélagið hefur tekið á sig, og hefur það seinkað uppbyggingu á þeim stóriðjuframkvæmdum sem fyrirhugaðar voru. Þetta er farið að há sveitarfélaginu og vonandi getum við farið að spýta í lófana og staðið með Reyknesingum í að minnka skuldahalann með því að gera samninga um aðkomu að höfninni í Helguvík.

Ég vil að lokum nota tækifærið og hvetja ráðherrann til að leggja verulega áherslu á uppbyggingu varanlegs fjarskiptakerfis í dreifðum byggðum landsins. Það er gríðarlega mikilvægt. Það er svo mikilvægt að halda unga fólkinu heima í sveitunum og dreifðu byggðunum. Það gerist ekki öðruvísi en að fjarskiptin og tölvurnar og símarnir virki á þessum svæðum. Unga fólkið getur ekki hugsað sér að koma heim um helgar úr skólunum vegna þess að það getur ekki notað tölvurnar, nær ekki sambandi. Við þekkjum þetta og ég veit að innanríkisráðherrann hefur þegar sett nefnd af stað til þess að fara í þessi mál og ég treysti því að það verði unnið hratt og vel í þeim málum. Það er afar mikilvægt. Ég held hreinlega að eitt af mikilvægustu málunum á landsbyggðinni núna séu fjarskiptin og svo auðvitað það sem heyrir ekki undir hæstv. innanríkisráðherra, rafmagnsmálin. Virðulegi forseti, ég segi að þriggja fasa rafmagn inn á hinar dreifðu byggðir landsins sé líka eitt af stóru málunum.

Ég hef nú stiklað á stóru í samgönguáætlun. Það var forvitnilegt að kynna sér þetta gagn og fara í gegnum það. Ég tek undir og ítreka að hér er margt gert vel. Ég vona að þegar upp er staðið verðum við sáttari við áætlunina og getum unnið eftir henni áfram og hún verði okkur öllum og landsmönnum til heilla.