143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[18:57]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er áhugavert að ræða göngin. Ég ætla ekki að gerast sérstakur talsmaður þeirra en það hittist þannig á að ég hef aðeins verið að skoða þau mál undanfarið. Með aukinni umferð stigmagnast áhættan og verður miklu meiri en ella þannig að þegar bílar eru orðnir 5 til 8 þús. á dag kemur að því á köflum að göngin anni því ekki. Ég held að það sé ekki sérstakur áhugi þeirra sem að þessu standa og vilja halda verkefninu áfram, að græða eitthvað á því. Eins og ég sagði áðan eru þetta 80 milljónir í eigið fé af 3 milljörðum eða svo, sem er afar lítið brot. Ég held að þeir hefðu jafnvel getað ávaxtað pund sitt betur annars staðar. En ég held að það sé mikilvægt að menn haldi áfram að skoða tækifærin við Hvalfjarðargöng, en það er auðvitað þeirra ákvörðun hvernig það verður gert.

Um fjárfestingarsamninginn á Bakka vil ég segja að það var afar skynsamlegt að klára hann áður en farið var af stað. Ég þekki ekki nákvæmlega hvernig klukkan gekk í því á sínum tíma árin 2006 og 2007 þegar farið var af stað í Helguvík. Ég reikna með að einhvern tíma hafi staðið til að gera það. En það hefur alla vega frestast og þau mál eru í ólestri. Þegar við þurfum að horfa fram á veginn finnst mér að við eigum að reyna að leysa úr vandamálunum og finna leiðir til þess, af því að samfélagið þarna hefur þurft að blæða fyrir þetta. Ég held að ekki verði hægt að segja að uppbygging hafnarinnar hafi verið ósvinna vegna þess að hún mun skila sér þegar fram líða stundir og er grundvöllurinn að því að þarna byggjast væntanlega upp gríðarlega skemmtileg tækifæri, mörg atvinnutækifæri, sem munu skapa fjölbreytt (Forseti hringir.) og vel launuð störf. Það er markmiðið.