143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[19:16]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa spurningu sem er stórmál; ég kom reyndar ekki inn í umræðuna áðan varðandi innanlandsflugið en get þá úttalað mig um það nú.

Hv. þingmaður var með aðra spurningu líka á undan sem ég … (VBj: Hvernig Sundabrautin breytir …) Já, Sundabrautin, hvernig hún grípur inn í (Forseti hringir.) röðina í eflingu samgangna. Það er einmitt málið að ég hef miklar áhyggjur af því að þá fari önnur sjónarmið að ráða uppbyggingu samgangna frekar en þau sem ég hef verið að tíunda hér sem varða einmitt samgöngur og samskipti byggðanna, sem varða almannahag og þau lífsgæði sem snúa að landinu. Þá fara önnur sjónarmið að verða ofan á, þ.e. hagnaðurinn og að þetta geti verið einhvers konar bisness. Það finnst mér verra, nóg er nú um að í landinu séu viðskipta- og markaðshugsun og markaðssjónarmið að troða sér inn á hvert og eitt svið mannlífsins. Ég vil þess vegna standa á móti því hvað varðar samgönguáætlun vegna þess að ég sé þetta sem slík grunnlífsgæði og grunninnviði, sérstaklega í þessu harðbýla landi okkar og sérstaklega fyrir okkur sem búum utan við höfuðborgarsvæðið.

Ef ég svara seinni spurningu hv. þingmanns bara beint: Ef við horfum mjög þröngt út frá hagsmunum íslenskrar ferðaþjónustu einungis þá ætti innanlandsflugið allt saman að vera í Keflavík, ef við horfum einungis á málin út frá hagsmunum ferðaþjónustu. Það eru hins vegar fleiri hagsmunir sem spila þarna inn í, byggðahagsmunir sérstaklega, og ýmsu þarf að breyta í stjórnsýslulegum innviðum landsins áður en við getum tekið flugvöllinn úr Vatnsmýrinni út frá byggðasjónarmiðum og hagsmunum byggða landsins, landsbyggðanna. Ég vil sjá þær breytingar fyrst fyrir okkur úti á landi áður en flugvöllurinn fer. En ef við horfum bara á þetta út frá ferðaþjónustu á flugvöllurinn að vera í Keflavík.