143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[20:06]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu. Það er einstaklega ánægjulegt að heyra þingmann úr landmiklu og víðfeðmu kjördæmi, eins og Suðurkjördæmi, mæla sérstaklega með vegaframkvæmdum í öðrum kjördæmum og tala um alvarlegt ástand á Vestfjörðum og undir Hafnarfjalli og eins malarvegina fyrir austan.

Ég vildi spyrja hv. þingmann út í það sem hann talaði um varðandi Hellisheiði og lausnina á tveggja akreina veginum þar. Þingmaðurinn hafði orð á því að þar væri á köflum ekki nægilega vel gert og þyrfti að gera breytingar á þeim fyrirætlunum sem þar eru, ef ég skildi þingmanninn rétt. Ég vil biðja þingmanninn um að lýsa því hvaða kafla hann er með í huga á leiðinni austur. Ég er eindregið sammála þingmanninum um mikilvægi þess að reyna að fækka slysum eins fljótt og vel og kostur er á þessari leið og einkum auðvitað þeim alvarlegu banaslysum sem þar hafa tíðum orðið.

Ég vildi líka nota tækifærið og inna hv. þingmann eftir því sem aðeins hefur verið í umræðu undanfarna daga um að nauðsynlegt sé að bæta aðgengi að Urriðafossi. Ég veit að hann þekkir aðstæður þar vel. Þar er lítil og léleg aðkoma og spurning hvort ekki sé full ástæða til þess við svo mikla fjölgun ferðamanna og áherslu á það að reyna að dreifa þeim sem víðast um, eins og þingmaðurinn nefnir, að gera úrbætur á veginum þar og aðstöðunni við fossinn þannig að rútubílaumferð eigi hægara með að komast með ferðamenn að þeirri miklu náttúruperlu.