143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[20:08]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir spurningarnar.

Við byrjum á Hellisheiði. Ég er að tala um kaflann niður í Sandskeiði þar sem eru tvær akreinar öðrum megin og sums staðar fara þær úr tveimur niður í eina. Mig grunar að akreinarnar hafi verið 2+2 til þess að mæta auknu álagi á álagstímum, þá væntanlega yfir sumartímann eða vetrartímann þegar verið er að taka fram úr hægfara ökutækjum og því um líkt. Ef við horfum á þetta í reynd þá er á þeim köflum þar sem mesta umferðin er alltaf einn og einn bíll að skjótast í viðbót þegar akreinin minnkar út tveimur niður í eina. Ég tel það hættulegt þar sem er svona mikil umferð. Í staðinn ætti að hafa bara annaðhvort 2+1 eða 2+2.

Annað gerist á veturna, sérstaklega við Litlu kaffistofu. Þá safnast þar ansi mikill snjór og snjóruðningstæki eiga erfitt með að ryðja akreinar sem skiptast á að vera 2+2 og 2+1. Þetta eru svona praktísk atriði sem ég held að menn hafi ekki séð fyrir. Ég vil ekki að þetta gerist í endanum á veginum. Ég veit ekki hvort hægt sé að laga þetta eða bæta einhvern veginn það sem er komið, en það verður í framhaldinu að gæta þess að við gerum ekki sömu mistök aftur.

Ég sé að nú á ég bara tíu sekúndur eftir og nota því seinna andsvarið í að svara seinni spurningunni.