143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[20:14]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína. Mig langar aðeins að spyrja hann út í Sundabraut, sem hefur nú verið þó nokkuð í umræðunni undanfarið.

Hér í samgönguáætlun er talað um að skoða eigi kosti þess að Sundabraut verði sett í einkaframkvæmd. Settir hafa verið miklir fjármunir í uppbyggingu á almenningssamgöngum með samningi á milli Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu á suðvesturhorninu. Þeir samningar fólu í sér ákveðna forgangsröðun til að ekki væri farið út í stórar og dýrar framkvæmdir á ákveðnu tímabili meðan almenningssamgöngur væru efldar. Ég vildi heyra viðhorf hv. þingmanns gagnvart þessu og líka gagnvart almenningssamgöngum sem efldar hafa verið vítt og breitt um landið. Mér heyrist nú vera mikil ánægja með það alveg þvert á flokka hjá sveitarstjórnarmönnum og fólki á landsbyggðinni sem ég hef rætt við. Telur hv. þingmaður að efla þurfi almenningssamgöngur úti um landsbyggðina enn frekar til að tengja saman atvinnusvæði og aðgengi að skólum? Telur hann að bæta þurfi almenningssamgöngur í kjördæmi hans, þar sem hann þekkir best til, að tengja þurfi þar enn betur innbyrðis? Eru einhverjir árekstrar þar varðandi einkaaðila sem ætla að fara sömu leiðir eins og nú hefur komið í ljós á sumum stöðum þar sem menn vilja láta markaðslögmálin ráða?