143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[20:17]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir andsvar hennar og spurningar.

Hún spyr fyrst um Sundabrautina. Ég hef þannig séð engar skoðanir á því samgöngumannvirki eða þeirri samgöngubót, ekki nema að því leyti ef það er til bóta og hjálpar Reykjavík og höfuðborgarsvæðinu að verða betri staður. Við sjáum það hérna, sérstaklega niðri á Hringbraut að þar er mikil umferðarteppa á háannatímum, niðri við sjó á morgnana og aftur seinni partinn. Ef Sundabraut mun leysa hluta af þeim vanda er ég ekki í vafa um að það sé góð framkvæmd.

Hv. þingmaður talaði aðeins um hvort Sundabraut yrði fjármögnuð með aðkomu einkaaðila. Ég er ekki búinn að mynda mér skoðun á því. Það var rætt fyrr í þessum umræðum og ég er sammála sjónarmiðum sem fram komu hjá hv. þm. Haraldi Benediktssyni, þ.e. að slíkt samgöngumannvirki eða svona innviðir ættu ekki að vera gróðaframkvæmd þó að það væri einkaframkvæmd. Það mætti skila ákveðnum arði en engu umfram það.

Ég hef ekki tíma til að svara öllum spurningunum en hv. þingmaður kom aðeins inn á almenningssamgöngur og ég er alveg sammála því að við eigum að gera allt sem við getum til að efla almenningssamgöngur. Kannski ég fái að nota seinna andsvar mitt til þess að tæpa aðeins á því.