143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[20:21]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurt er um forgangsröðun. Það fer allt eftir forsendum og þær eru náttúrlega misjafnar á hverjum stað en ég held að ég ætli ekki að eyða löngum tíma í að fara í það.

Varðandi almenningssamgöngur held ég að við þurfum að laga betur regluverkið þar og vinna það aðeins betur, því að ekki viljum við að það stangist á við ferðaþjónustuna en nýverið féll dómur fyrir austan þar sem talið var leyfilegt að keyra ofan í sérleið. Ég held því að við þurfum að vinna betur að þessu, efla almenningssamgöngur, laga regluverkið og halda áfram að efla það.

Hvað varðar hafnalög get ég tekið undir með hv. þingmanni um að það þarf að hækka framlög til hafna úr 60% í 90%, þannig að menn fái betri stuðning við nauðsynlegar framkvæmdir í þeim efnum og hafa þeir komið fyrir nefndina og sagt okkur að ráðast þurfi í margs konar framkvæmdir, sérstaklega viðhald víðs vegar um landið, að kominn sé tími á það. Annars get ég fullvissað hv. þingmann um að verið er að vinna vel að þessum málum í nefndinni sem skilar vonandi af sér sem fyrst.