143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[20:33]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég get tekið undir með honum að það skiptir gríðarlega miklu máli að við gætum öryggis í umferðinni og reynum að búa þannig um vegakerfið að þar verði sem allra minnst slysahætta. Það ber þó að hafa fyrirvara á þeim tölum sem birtar eru þegar er talað um 18% dauðsfalla. Reykvíkingar eru þrátt fyrir allt þriðjungur af íbúum þessa lands. Nú er ég ekki alveg klár á hvar þetta er, af því að hann talaði bara um Reykjavík, hvort það eru þá 100 þúsund manns á því svæði, 150 þúsund á höfuðborgarsvæðinu, 150 þúsund er næstum helmingurinn af þjóðinni. Það breytir því ekki að við verðum líka að skoða heildina, þ.e. það verður greinilega mikið af dauðaslysum utan Reykjavíkur.

Svo er líka það sem ég vil spyrja hv. þingmann um varðandi slysin, að hve miklu leyti hægt sé að koma í veg fyrir þau bara með breytingum á vegakerfinu. Við erum að tala um áberandi gatnamót sem er verið að tala um að setja kannski í mislæg gatnamót með gríðarlegum mannvirkjum. Að hve miklu leyti mun það minnka slysatíðnina?

Annað sem ég tók eftir í áætluninni er að það er sérstakur kafli sem heitir Markaðar tekjur á bls. 23. Í fyrsta lagi ættu þær tekjur eiginlega að fara út miðað við það frumvarp sem hv. þingmaður hefur flutt um markaðar tekjur. Í öðru lagi er setning sem er mjög forvitnileg, með leyfi forseta:

„Á undanförnum árum hafa gjaldskrár markaðra tekna ekki hækkað í takt við verðlag.“

Er það í samræmi við það sem menn hafa verið að ræða um auknar álögur og eiginlega skattpíningu, helst á öllum sviðum eins og menn hafa rætt þetta? Þetta kom mér á óvart, ég skal vera alveg hreinskilinn með það. Hvaða skoðun hefur hv. þingmaður á kaflanum um markaðar tekjur?