143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[20:35]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmanni fyrir málefnalegt og gott andsvar. Hann spyr mig um hluti sem ég fór kannski ekki nógu skýrt í og biðst ég velvirðingar á því.

Fyrst varðandi slysin eru þetta tölur frá 2007–2011, þetta eru 18% banaslysa, 43% alvarlegra slysa. Það er alveg rétt að auðvitað eru það ekki aðeins Reykvíkingar sem lenda í slysunum, þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um að menn eru alveg búnir að kortleggja hvaða staðir þetta eru. Af því að hv. þingmaður spyr um hönnun umferðarmannvirkja þá eru það Svíar, og ég veit að ég hljóma eins og rispuð plata þar sem ég er alltaf að vísa í Svíþjóð en gömlum krata, eða ungum, eins og hv. þm. Guðbjarti Hannessyni hlýtur nú að þykja vænt um það, sem við getum sagt að séu bestir í því, sú þjóð er komin lengst hvað það varðar.

Auðvitað er það þannig að ekki er hægt að stoppa öll slys með hönnun umferðarmannvirkja en það skiptir miklu meira máli en menn ætla. Þetta snýst ekki einungis um dýr mislæg gatnamót. Við gætum breytt mjög miklu með því til dæmis að vera ekki með vinstri beygju á gatnamótum, setja hringtorg þar sem eru umferðarljós, það er á umferðarljósunum þar sem mestu slysin verða vanalega. Þetta eru ekki alltaf gríðarlega dýr mannvirki, þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um að við notum umferðarlíkan, sem við gerum ekki, þegar er verið að skipuleggja umferð á höfuðborgarsvæðinu og að við einbeitum okkur að þessu verkefni, tökum út hættulegustu punktana. Þetta snýst ekki alltaf um milljarða, alls ekki, í mislæg gatnamót.

Varðandi mörkuðu tekjurnar fór ég ekkert í þær en mér finnst þetta gott dæmi um röksemd fyrir því að við ættum að hætta með þessar mörkuðu tekjur. Eins og ég held að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi farið yfir er það faktískt svo að miðað við kerfi sem er núna skuldar Vegagerðin ríkissjóði gríðarlegar upphæðir. Við vitum alveg að það fer eftir árferði og aðstæðum hvort við notum hinar svokölluðu mörkuðu tekjur í vegagerð eða í eitthvað annað. Þetta er ein röksemdin fyrir því að við ættum ekki að vera með (Forseti hringir.) kerfi sem augljóslega er úr sér gengið.