143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[20:38]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni varðandi öryggismálin. Ég er ánægður að heyra að við erum ekki að tala um mannvirkjaumræðuna sem alltaf verður í tengslum við öryggismál. Eins og hefur komið fram í rannsóknum þar sem bílar hafa keyrt um landið og metið hættuna á umferðarslysum eða alvarlegum slysum um allt land skiptir frágangur utan vega, í nágrenni við veg, það hvernig vegaxlirnar eru og annað, jafnvel meira máli en margt annað.

Aðeins að mörkuðu tekjustofnunum. Ég vildi fá að kommenta á það hvernig við nýtum þessa tekjustofna og hvernig eigi að uppfæra þá. Við höfum ekki haft verðtryggða markaða tekjustofna á þessum tíma, eins og hér hefur komið fram, heldur dregið úr þessum tekjum þannig að ekki hefur verið skattpíning á þeim þætti sérstaklega.

Mig langar að fá athugasemd líka varðandi það sem við ræddum, að ekki sé hægt að leysa allt með almenningssamgöngum eða reiðhjólum á höfuðborgarsvæðinu og menn tala um framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. En höfðu menn ekki áhyggjur af því þegar þeir gerðu samninginn um almenningssamgöngur, því að það er auðvitað ein leiðin til þess að minnka þörfina á að byggja mannvirki inni í borg og er þekkt aðferð, eins og veggjöld inn í borgina og annað slíkt, að þeir gátu ekki staðið við þann samning sem þó var gerður um þetta af fyrrverandi ríkisstjórn. Samningurinn var um einn milljarður, sem lækkaði í fjárlögum niður um næstum 10%.

Í síðasta lagi vil ég fagna yfirlýsingu hv. þingmanns um hálendisvegina. Ég deili þeirri skoðun sem hann kemur með um að menn þurfi að gæta sín varðandi hálendið og það verðmæti sem felst í því að eiga ósnortna náttúru. Þar með tengi ég líka við að alls ekki megi koma rafmöstur þvers og kruss um hálendið. Það eru ákveðin svæði þar sem eru sem betur fer þannig að hægt er að fara út í náttúruna án þess að sjá neitt af þessum mannvirkjum. Ég spyr hv. þingmann hvort hann deili ekki þeirri skoðun minni að það sé eins með vegina og rafmöstrin á Sprengisandsleiðinni, (Forseti hringir.) að menn eigi að reyna að halda hreinni og ósnortinni náttúru þar.