143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[20:40]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gerist oft þegar við ræðum saman að menn komast að því að þeir eru miklu meira sammála en þeir ætluðu í byrjun. Ég hef rætt það áður í þessum stól að það sem mér finnst vera mesta sjónmengunin á hálendinu, að vísu hendir fólk stundum drasli sem er fyrir neðan allar hellur, eru auðvitað möstrin. Það er ekki hægt að setja þau hvar sem er. Þetta er stórkostleg upplifun.

Ég var svo lánsamur að ég fór með foreldrum mínum þegar ég var barn um hálendið og hef reynt að gera það síðan. Það er stórkostleg upplifun. Ég hef farið í safarí í Afríku og það er að mörgu leyti líkt þótt það sé líka gríðarlega ólíkt. Þetta eru ákveðin verðmæti sem við eigum og við eigum að halda í þau.

Hv. þingmaður nefnir hluti eins og vegaxlirnar og vegrið, skilti, við erum til dæmis búin að setja skilti í Reykjavík. Stundum eru það leiðbeiningarskilti sem er gríðarleg slysahætta af og upphafsmaður EuroRap-verkefnisins, Ólafur Kr. Guðmundsson, hefur verið duglegur að vekja athygli á því. Stundum hefur verið framkvæmt og dýr umferðarmannvirki reist sem eru ekki örugg vegna þess að menn huguðu ekki að hönnuninni. Það er virkilega sorglegt. Stundum höfum við því sett peninga í eitthvað en því ekki verið fylgt eftir vegna þess að við höfum ekki hugsað um það alla leið að umferðaröryggi fylgi með.

Ég lít svo á að allir ferðamátar séu jafn réttháir. Ég vil auknar hjólreiðar. Ég vil fleiri göngustíga. Það þýðir ekki að ég sé á móti einkabílnum. Almenningssamgöngur eru alveg prýðilegar og þetta á allt að vinna saman. Þetta snýst ekki andstæður. Ég held að stundum loki menn svolítið eyrunum þegar verið er tala um umferðaröryggismál af því að þeir tengja þau við að menn tali um einkabílinn og séu á móti reiðhjólum eða almenningssamgöngum. Þetta snýst ekki um það. Þetta er allt jafn rétthátt. En við getum ekki lokað augunum fyrir staðreyndum, (Forseti hringir.) staðreyndin er þessi: Slysin verða í Reykjavík. Við getum komið í veg fyrir þau en til þess þarf vilja.