143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[20:45]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir viðbrögðin við ræðunni og andsvarið. Það er ekki alltaf þannig að við hv. þm. Helgi Hjörvar séum sammála, en við höfum svo sem oft verið sammála og ánægjulegt að við séum algjörlega sammála um umferðaröryggismálin og hálendið.

Hv. þingmaður nefnir að við eigum að útrýma banaslysum og nefnir réttilega að fólki finnist það kannski vera útópía. En hann nefndi sjóslysin, að þar náðum við þeim árangri sem hefði verið talinn óhugsandi á einhverjum tíma.

Þegar kemur að flugslysum, virðulegi forseti, erum við með sérstaka nefnd sem skoðar þau og það er eðlilegt, við reynum að koma í veg fyrir þau slys og þannig eigum við að vinna. Við eigum líka að vinna þannig þegar kemur að umferðarslysum. Það sem við getum stýrt mest í þeim efnum er hönnun umferðarmannvirkja.

Hv. þingmaður fór yfir Sundabraut og það er ánægjulegt að hún er komin aftur á dagskrá og við séum að ræða hana. Við þurfum að fara vel yfir það mál. Ég er alveg sammála hv. þingmanni, ég útiloka ekki veggjöld og sannarlega ef tengingin yfir í Grafarvog kæmi fyrst þá hefðum við Grafarvogsbúar aðra möguleika, eins og við höfum nú. Ég er ekki að mæla gegn því. Ég sé í rauninni ekki að við gætum farið út í mannvirki eins og þetta í fyrirsjáanlegri framtíð án þess að hafa veggjöld. Það breytir engu hvar tengingin er, hvort hún er í Grafarvogi eða annars staðar.

Ég held hins vegar að við þurfum að fara vel yfir umferðartölur og annað slíkt því að ég er ekki viss um að umferðin, ef tengingin væri bara við Grafarvog og sérstaklega ef það yrði veggjald, mundi bera framkvæmdina. Það er ekki sama hvar sú tenging er. Ég hef haft miklar efasemdir um að hafa hana í Hamrahverfinu en það er eitthvað sem við þurfum að skoða, við erum svolítið á byrjunarreit. Við þurfum að dusta rykið af gömlum plöggum frá því að við hv. þingmaður vorum í borgarstjórn (Forseti hringir.) til að fara yfir það og skoða út frá nýjum umferðartölum.