143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[20:49]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þegar kemur að Sundabraut þurfum við að fara yfir það mál frá upphafi til enda. Ég skoðaði þetta ágætlega á sínum tíma og ég á svolítið erfitt með að sjá, út frá veggjöldum, að brautin gæti borgað sig ef tengingin er bara yfir í Grafarvog. Það er einfaldlega vegna þess að það er nokk sama hvar tengingin er sett; stór hluti íbúa Grafarvogsins mundi örugglega ekki sjá ástæðu til að nýta sér hana. Flestir úr Húsahverfi fara t.d. held ég beint inn á Vesturlandsveg, líka úr Staðahverfi. Ég hugsa að íbúar í Foldahverfi og Hamrahverfi mundu heldur ekki sjá sér sérstakan akk í því að nýta Sundabraut miðað við aðstæður eins og þær eru í dag. Ég sé mestu möguleikana og mestu bótina með Sundabraut fyrir þann fjölda bíla sem kemur í gegnum Mosfellsbæ af Vesturlandi og annars staðar frá og er á leið í miðbæinn, þeir gætu þá farið styttri leið í miðborg Reykjavíkur.

Ég held að við fengjum mest út úr þessu ef við tækjum hana alla í einu. Við vorum náttúrlega að hugsa um þetta á sínum tíma til að geta líka nýtt Geldinganes, verið með tengingu þangað. Það er stórkostlegt svæði og þar yrði án nokkurs vafa glæsileg íbúabyggð ef við vildum byggja þar.

Við þurfum að fara yfir alla þessa þætti því að ef við förum í aðgerð eins og þessa, í svona stóra framkvæmd, verðum við líka að ganga þannig fram að við léttum virkilega á umferðinni annars staðar í borginni. Það gerum við ekki öðruvísi en að nota umferðarlíkan. Umferðarlíkön eru notuð alls staðar í öllum borgum í heiminum þegar umferð er skipulögð en jafn skrýtið og það nú er, ég komst að því að það er ekki nýtt, þá eru þau ekki notuð í Reykjavík nema að mjög litlu leyti.