143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[21:04]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi Sundabrautina — hugsanlega framkvæmd þar, ekki er komin nein ákvörðun um það — verð ég að segja að mér finnst það ekki mjög ákjósanlegur valkostur að fara með þá framkvæmd í einkaframkvæmd og innheimta veggjöld. Ég er hrædd við þá þróun að við ætlum að fara að byggja upp vegakerfið okkar þannig. Ég tel að ekki eigi að forgangsraða með þeim hætti að taka svona stórt samgöngumannvirki, sem kostar gífurlega fjármuni, meðan aðrir landshlutar eru enn staddir þar sem þeir eru hvað varðar uppbyggingu vegaframkvæmda. Við verðum bara að horfa á heildarmyndina, hve miklu fjármagni við höfum efni á sem þjóð að setja í samgöngur, hvort sem það er uppbygging vega eða framkvæmdir við hafnir landsins eða flugvelli.

Ég tel ekki rétt að forgangsraða þannig. Auðvitað hef ég ekki neina sérþekkingu á umferð hér í Reykjavík eða þeirri brýnu þörf sem menn telja vera á þessum kafla, en það sem maður heyrir utan að sér þá er álag á ákveðnum tímum dagsins og menn telja, sérfróðir menn sem ég hef hlustað á, að þetta sé ekki það brýnt að kosta eigi til svona gífurlegum fjármunum í þetta. Ég er frekar andsnúin öllum hugmyndum um einkaframkvæmd og veggjöld ef nokkur kostur er á að bíða með það þar til við höfum efni á því að gera það (Forseti hringir.) með öðrum hætti.