143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[21:08]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef menn hefðu staðið við þær samgönguáætlanir sem áður hafa verið lagðar fram þá væru Dýrafjarðargöng tilbúin. En veruleikinn er annar. Ég held að þetta sé ein besta byggðaaðgerð fyrir þetta svæði, sem stendur höllum fæti, og líka fyrir Ísafjarðarbæ, höfuðstað Vestfjarða, þar sem innspýtingu vantar, þar sem fólki hefur fækkað mikið. Eins og kom fram á fundi okkar þingmanna með bæjarstjórnarmönnum frá Ísafjarðarbæ í dag þá leggja menn mikla áherslu á að flýta þessari framkvæmd með einhverjum hætti, þó að það væri ekki nema að skoða það að byrja fyrr á framkvæmdum sunnan megin, á vegaframkvæmdum í kringum uppbyggingu Dynjandisheiðar og þeirri leið sem þarf að framkvæma samhliða Dýrafjarðargöngum.

Ég er mjög óttaslegin um hvað verður með áframhald uppbyggingar á Vestfjarðavegi 60. Ég talaði fyrir því að skoða ætti það að byggja þessa hálsa upp, sem ekki var nú til vinsælda fallið, og kannski fyrst og fremst á þeim forsendum að ég taldi brýnt að góðar vegasamgöngur væru við þetta svæði, að það skipti sköpum, svæðið gæti ekki beðið. Heimamenn tóku ákvörðun um að þeir vildu láglendisveg og farið var eftir því. Ég tel að við séum komin á ögurstund varðandi niðurstöðu í þeim málum og það verður að höggva á þann hnút. Ég tel að það hljóti að vera hægt að finna veglínu sem geti samræmt þau sjónarmið sem snúa að umhverfisþáttum varðandi Teigsskóg og veglagningu á þessu svæði.