143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[21:10]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er búið að ræða heilmikið um samgönguáætlun og í síðustu ræðum ekki hvað síst um Sundabraut. Mig langar að byrja á því að lýsa ánægju minni með að Sundabraut sé komin aftur inn á samgönguáætlun, enda er það í samræmi við þingsályktunartillögu sem ég er 1. flm. að fyrir hönd þingmanna Framsóknarflokksins í Reykjavík, og segja má að björninn sé unninn til hálfs, ef það er unnt.

Hér hefur jafnframt verið talað um að við þurfum að forgangsraða, sem er vissulega það sem við erum ætíð að gera, tel ég, og forgangsraða ekki síst með tilliti til öryggismála. Sundabraut þýðir mikið öryggi í samgöngumálum borgarinnar. Sundabraut styttir að auki allar vegalengdir umtalsvert milli borgarhverfa og miðborgarinnar. Einnig styttir hún vegalengdir frá ýmsum landshlutum inn til borgarinnar því að með Sundabraut, þegar hún er komin á, allir þrír áfangarnir, verður stytting á leiðinni um tæpa 10 kílómetra miðað við að fara í gegnum Mosfellsbæ.

Fyrir okkur Reykvíkinga tel ég að Sundabraut auki líka gríðarlega möguleika á flottum lóðum á glæsilegum landsvæðum eða meðfram ströndinni. Sundabraut er einnig mikilvæg varðandi atvinnutækifæri eða atvinnulífið og ekki hvað síst af því að hún styttir leiðina á milli athafnasvæða Faxaflóahafna, og við erum hér að ræða almennt um samgönguáætlun og þar með inni er hafnaáætlun. Faxaflóahafnir eru með sín athafnasvæði víða en Sundabrautin mun leiða þau nokkuð saman og það er náttúrlega allt annað að fara með þungaflutninga eftir slíkri vegarlagningu en að þurfa að fara í gegnum þéttbýlissvæði eins og Mosfellsbæ.

Ef maður getur horft til einhvers sparnaðar vil ég, og við framsóknarmenn, eindregið hafa flugvöllinn þar sem hann er og hætta þeirri umræðu að flytja hann eitthvert. Það mun kosta stórkostlega fjármuni sem mér finnst mikið betra, ef við höfum þá, að leggja í Sundabraut. Þess vegna má að mínu viti segja að það að fara í Sundabrautarframkvæmd festi flugvöllinn í sessi þar sem hann er. Hún styrkir náttúrlega miðborg Reykjavíkur og síðast en ekki síst er Sundabraut efnd á bráðum 20 ára gömlu loforði sem við Reykvíkingar gáfum Kjalnesingum við sameininguna. Þetta er undirritað loforð frá 1997. Auðvitað var Sundabraut þess vegna sett inn á. Við lögðum þunga áherslu á að hún væri sett inn á samgönguáætlun en hún var tekin út og þess vegna er ég ánægð með að hún sé aftur komin inn og ég mun ekki hætta fyrr en nefnd er komin í málið og við förum að setjast yfir leiðir eða dusta rykið af þeim fjölmörgu leiðum og hugmyndum sem ræddar hafa verið í borgarstjórn Reykjavíkur fyrr og síðar. Hér hafa tveir hv. þingmenn, sem einnig voru borgarfulltrúar áður fyrr, rætt sín á milli og voru á því að það þyrfti að gera þetta, hrista rykið af þeim hugmyndum sem borgarstjórn Reykjavíkur fjallaði um í nokkuð mörg ár fram og til baka.

Mig langar að minnast á eitt sem ekki hefur verið nefnt í þessu. Tíminn líður hratt og bráðum eru 20 ár síðan þetta loforð var sett fram. Það eru ekki nema 15 ár þangað til 2030 rennur upp. Og hvað er svona merkilegt við árið 2030? Það er ellefu hundruð ára afmæli lýðveldis og ég tel að það sé hálfgerður heimsviðburður og ekki vafi á því að allflestir Íslendingar vilja streyma til Þingvalla þar sem við stofnuðum Alþingi árið 930. Hvernig ætlum við að fara með íbúa suðvesturhornsins, hvernig ætlum við koma þeim þangað ef við reynum ekki að hugleiða samgöngumálin? Ég held að flestum sé í fersku minni hvað menn sátu í löngum biðröðum árið 2000 og það sama gerðist árið 1994.

Árið 2030 er ekki langt undan og það er algjör nauðsyn að mínu viti að Sundabraut verði þá komin, algjör nauðsyn, svo menn sitji ekki fastir og komist ekki einu sinni upp í Mosfellsbæ, hvað þá lengra, eins og hefur gerst. Það þarf nefnilega tíma til undirbúnings og þó að hér sé verið að tala um Sundabraut geri ég mér fullkomlega ljóst að hún verður ekki lögð á morgun.

Einnig hefur verið rætt um að Sundabraut mundi henta vel í einkaframkvæmd. Ég er ekki sannfærð um að ég hafi skilning á því að hafa hana í einkaframkvæmd að því leyti til að það þurfi að borga fyrir að aka hana. Þó eru möguleikar á því fyrir fólk að aka aðra vegi í flestum tilfellum. En mér finnst Sundabraut upplögð í samvinnuverkefni, samvinnuverkefni ríkis, borgar og Faxaflóahafna. Eins og ég hef getið áður í ræðu minni tel ég að það sé svo mikill ávinningur fyrir hafnaryfirvöld að fá Sundabraut til þess að tengja saman athafnasvæði þeirra að þeir mundu eflaust verða fúsir til að koma í slíkt samvinnuverkefni. Mér finnst það miklu, miklu eðlilegra. Þar með eru þeir kannski að greiða ákveðið gjald fyrir það að borg og ríki fari í þessa framkvæmd fyrir ávinninginn sem af því er.

Virðulegi forseti. Ég er að hugsa um að létta störf Alþingis nokkuð hér og nú og draga til baka þingsályktunartillögu okkar framsóknarmanna, þingmannanna úr Reykjavík, sem var svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að vinna að því að Sundabraut verði að nýju tekin inn í samgönguáætlun við næstu endurskoðun hennar.“

Ég tel að hún sé komin inn og þingsályktunartillagan þar með óþörf, þó að ég sé að taka af mér þann heiður að mega mæla fyrir ágætistillögu. En þetta geri ég ekki síst til þess að létta hér á þingstörfum sem mér finnst ekki vanþörf á.