143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[21:18]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Það er athyglisvert að hv. þingmaður skuli draga tillöguna varðandi Sundabraut til baka úr ræðustól.

Það stendur um Sundabraut á bls. 37 í samgönguáætluninni sem hér liggur fyrir, með leyfi forseta:

„Ekki er fjárveiting til þessa verkefnis en fyrirhugað er að skoða kosti þess að Sundabraut verði einkaframkvæmd.“

Síðan er það rökstutt á annan hátt.

Ég var afar ánægður að hv. þingmaður skyldi taka fram að það þyrfti ekki að vera gjaldtaka á þessum vegi því að það kom fram í umræðunni fyrr í kvöld að ef menn ætla að setja gjald sé spurning hvort það verði þá innan borgar, vegna þess að það mun náttúrlega breyta samgöngunum inn á Grafarvoginn og það svæði og svo yfir á Kjalarnesið, þá væri komin gjaldtaka innan Reykjavíkurborgar. Það er enginn ágreiningur milli mín og hv. þingmanns um að vegasamgöngur við höfuðborgina þurfa að lagast. Aftur á móti hef ég haft efasemdir um að hægt væri að gera það með veggjöldum, hafandi greitt veggjald á aðeins einni leið út úr höfuðborginni alveg frá því 1998. Það hafa líka verið gríðarlega stórar framkvæmdir, bæði á Suðurlandsveginum og Reykjanesbrautinni, og menn hafa ekki talið ástæðu til að fara í gjaldtöku á þeim svæðum.

Ég held að eina leiðin í gjaldtökum inn í framtíðina sé einhvers konar GPS-kerfi sem heldur þá utan um að maður borgi veggjöld á ólíkum stöðum tengt nýframkvæmdum og jafnvel sleppi algjörlega við gjaldtöku þar sem eru slakir vegir eins og til dæmis á Vestfjörðum eða annars staðar þar sem menn hafa ekki lokið við vegakerfið.

Mig langar aðeins að heyra sjónarmið hv. þingmanns hvað þetta varðar af því að mér finnst það eiginlega grundvallaratriðið að menn fari ekki í framkvæmdir og (Forseti hringir.) skattleggi enn einu sinni á þessari leið.