143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[21:42]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Svo við tölum svolítið um okkar kjördæmi, í því kjördæmi er stærstur hluti tengivega og héraðsvega með óbundnu slitlagi í dag. Í samgönguáætluninni eru lagðir fjármunir í Uxahryggjaveg. Menn eru víða skiljanlega orðnir ansi óþreyjufullir, t.d. í Húnavatnssýslu, í Skagafirði, í uppsveitum Borgarfjarðar og líka á Snæfellsnesi, eftir að lagðir séu einhverjir fjármunir í þá vegi sem þar eru enn eftir, sem hafa því miður ekki fengið mikið viðhald undanfarin ár. Eins og við vitum hefur ferðaþjónusta vaxið gífurlega og straumur út á land hefur verið að aukast og aukin traffík fólks á bílaleigubílum er um þau svæði sem eru næst höfuðborgarsvæðinu, fyrir utan heimamenn og ferðafólk almennt á landinu yfir sumarið. Telur hv. þingmaður ekki brýnt að fara að hraða uppbyggingu þessara vega?

Ég vil líka spyrja hann aðeins út í almenningssamgöngur í Norðvesturkjördæmi sem hann þekkir vel til. Þær hafa verið að eflast og menn eru ánægðir með þær. En er nóg að gert? Þarf ekki að bæta þar í til að tengja betur saman atvinnusvæði, sókn í skóla og tengja betur þetta svæði innbyrðis? Það heyrist á öllum sem um þetta fjalla að menn séu mjög ánægðir með að farið hafi verið af stað með (Forseti hringir.) uppbyggingu almenningssamgangna.