143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[21:44]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að minnast á almenningssamgöngurnar. Það er eitt af þeim verkefnum sem menn geta verið mjög stoltir af á síðasta kjörtímabili að hafa tekið upp, þ.e. að sameina þjónustuna á svæðunum þannig að menn geti rekið hagkvæmar, ódýrar almenningssamgöngur, og ég tek undir með hv. þingmanni að það hefur verið gríðarlega ánægjulegt. Sá samgöngumáti hefur verið nýttur mikið og hefur nýst mjög vel alls staðar á landinu, t.d. í tengslum við skólana á milli Húnavatnssýslu og Skagafjarðar þar sem menn hafa haft möguleika, skólanemendur, að fara í strætó í staðinn fyrir að borga stórfé með öðrum hætti eða til komast með öðrum leiðum. Þetta gildir líka á milli Akraness og Reykjavíkur og væri óskandi að tíðnin væri enn meiri þannig að menn gætu raunverulega lagt bílnum og þar með létt álaginu af þessum leiðum og líka inn í miðborgina og nýtt betur þá vegi sem fyrir eru.

Varðandi tengivegina má segja að örlítil aukning er í samgönguáætluninni, ég fagna því. En það er auðvitað þannig, ég hef oft velt fyrir mér af því maður hefur sagt að oft eru þrenns konar rök fyrir því að lagfæra vegi: Ferðamenn, sumarbústaðaeigendur, en oftast gleymist þriðji parturinn, þ.e. þeir sem búa á svæðinu og eru að nýta þjónustuna, flytja vörur sínar, t.d. bændurnir í mörgum tilfellum. Ég tel því að skipuleg áætlun þurfi að vera og að vinda þurfi bráðan bug að því að koma slitlagi á tengivegina. Ég get því tekið undir með hv. þingmanni að það sé brýnt. Ég held að langbest sé að gera það með einhverri langtímaáætlun sem er svo unnið stöðugt að. Þar hafa líka komið hugmyndir um að slaka aðeins á kröfunum varðandi fráganginn á vegunum, þ.e. að örlítið minni hraði verði kannski á einhverjum ákveðnum svæðum, hvernig sem það yrði nú gert. Vegagerðin hefur reyndar gert þetta til að geta náð meiri vegalengdum með slitlagi.

Dæmi um þá vegi líka sem þarf að ganga frá, sem hefur hlutverk bæði fyrir þá sem (Forseti hringir.) búa á svæðinu og ferðamenn, það er um Vatnsnesið, sem er einn (Forseti hringir.) af þeim vegum sem þarf að líta á.