143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[21:47]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að láta hér nokkur orð falla um tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun. Þar er af mörgu að taka. Sem formaður í flokki er ég búinn að fara víða um landið í haust og margar af þeim samgöngubótum sem hér eru nefndar eru auðvitað verkefni sem ég hef heyrt fólk á hverjum stað kalla mjög eftir og er mikið fagnaðarefni að sjá þær í áætluninni.

Ég nefni hér af handahófi nýja brú yfir Ölfusá, vegabætur á Hellisheiði. Ég nefni að sjálfsögðu Vestfjarðaveginn. Ég verð að segja eftir að hafa farið þar um þykir mér mjög mikilvægt að menn hafi ákveðið að reyna til þrautar að finna færa leið um Teigsskóg og reyna að finna möguleika til þess að sætta þau mikilvægu sjónarmið að fara vel með umhverfið og ganga ekki óhóflega á það en að finna jafnframt bestu, hagkvæmustu og einföldustu leiðina í þágu almannahagsmuna til að tryggja samgöngur. Ég nefni líka Dettifossveg sem var mikið ræddur við mig á Norðausturlandi, svo ég drepi á nokkrum atriðum.

Ég vil einnig nefna, vegna þess að oft er talað með nokkuð neikvæðum hætti um jarðgöng og jarðgangagerð, að ég er eindreginn talsmaður samgöngubóta. Það er ótrúlegt að sjá þann árangur sem samgöngubætur hafa á mannlíf og atvinnulíf þegar þær eru komnar til framkvæmda. Það er mjög gott að sjá að ríkisstjórnin sneri ekki til baka með Norðfjarðargöng sem búið var að ákveða að ráðast í í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það er gott að sjá hér inni framlag til Dýrafjarðarganga og að rannsóknir verði hafnar á gangagerð um Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar. Margir segja þegar þeir horfa á stöðuna á Seyðisfirði í dag að þetta verði mikil samgöngubót nú þegar íbúum Seyðisfjarðar fækki stöðugt. Auðvitað er þetta erfið aðstaða, en þegar maður horfir til dæmis á Siglufjörð og tækifærin sem þar hafa orðið til í kjölfar samgöngubóta sér maður mikilvægi samgöngubóta fyrir atvinnulíf og mannlíf.

Við höfum nýlegt dæmi frá því fyrir fáeinum árum um að erlent fyrirtæki sem vildi hasla sér völl á Seyðisfirði en Fjarðarheiðin var óyfirstíganleg hindrun. Og svo sjáum við árangurinn á Siglufirði, uppbygginguna þar, sem enginn reiknaði með þegar farið var í hagkvæmnismat á Héðinsfjarðargöngum. Það var aldrei, svo mig reki minni til, fjallað um hvaða tækifæri mundu felast í því fyrir Tröllaskaga og Siglufjörð að mögulegt yrði að aka hring um Tröllaskaga og skapa þar með algjörlega ný tækifæri í ferðaþjónustu. Þessi aukning hefur komið heimamönnum í opna skjöldu. Í hittiðfyrra þegar ég var á Siglufirði sagði bakarinn í besta bakaríi á landinu við mig að ástandið þarna væri eins og það væri Þorláksmessa á hverjum degi allt það sumar. Síðan hefur aukningin orðið enn meiri.

Þetta á að vera okkur til áminningar um að það er aldrei hægt að reikna arðsemi samgöngubóta út frá kyrrstöðu. Ef maður horfir á þær samgöngubætur sem í gangi eru á Austfjörðum, Norðfjarðargöng, sem gríðarlega mikilvægt er að ráðast í, og svo möguleikann á gangatengingu við Seyðisfjörð þá hefur Seyðisfjörður allt til að bera til að verða glæsilegur staður en auðvitað þarf að fá stuðninginn sem felst í alvörusamgöngum.

Við eigum auðvitað ekki bara að horfa á gangagerð á landsbyggðinni. Ég sakna þess að sjá ekki eitt verkefni hér sem mér þykir mjög mikilvægt og hef margsinnis talað fyrir, en það er að gera agnarlítil göng, í reynd stokk í Garðabænum á gatnamótum Vífilsstaðavegar og Hafnarfjarðarvegar, sem flestir sem aka þar reglulega um þekkja sem Aktu, taktu- og Olís-gatnamótin. Til eru peningar sem ætlaðir eru til að gera þarna óskaplega stór gatnamót, ill yfirferðar fyrir gangandi vegfarendur, en það mundi ekki kalla á mikla aukafjármuni að bæta í og gera þarna stokk. Það fylgir því mikill samfélagslegur kostnaður að Hafnfirðingar og fleiri sitji í bílum sínum þarna á morgnana og síðdegis á leið í og úr vinnu. Reynslan úr Kópavogi, þar sem byggt hefur verið yfir gjána, segir okkur allt um það hversu miklu máli það skiptir fyrir bæjarbrag og tækifæri í sveitarfélögum að brúa umferðaræð sem sker byggðina í sundur, að börn geti gengið áhyggjulaus erinda sinna yfir stórar umferðaræðar. Ég mundi vilja að menn horfðu á möguleikann á að hnika þarna til.

Áður en ég fer yfir mitt kjördæmi, sem ég á auðvitað eftir að gera, vil ég aðeins víkja að reiðvegum, sem eru nú áhugamál mitt og ég verð að viðurkenna að það er ekki algjörlega ótengt því að ég er hestamaður. Ég er ekki sannfærður um að nægjanlega sé að gert með 60 millj. kr. fjárveitingu á ári í reiðvegakerfið. Við vitum alveg að hlutur hestamennsku í ferðaþjónustu fer vaxandi og það er gríðarlega mikið öryggisatriði jafnt fyrir akandi vegfarendur og ríðandi að aðskilja vélknúin ökutæki og reiðvegi. Það er umferðaröryggismál sem ekki ber að gera lítið úr. Ég mundi því óska eindregið eftir því í nefndinni að horft yrði til þess hvort nægjanlega væri að gert þar.

Varðandi svo mitt kjördæmi, Suðvesturkjördæmið, og höfuðborgarsvæðið þá fagna ég því að sjá hér áframhald endurgerðar Kjósarskarðsvegar. Það hefur verið reglulegt umkvörtunarefni íbúa í Kjósinni hversu slæmur hann er og holl áminning. Sjálfur reyni ég nú að fara hann einu sinni á hverju sumri bara til að minna mig á það sem þingmann kjördæmisins hversu vondur vegurinn er. Það er mikilvægt að bæta þar úr út frá ferðaþjónustu og fjölbreyttum leiðum milli Þingvalla og eins vegna ferðaþjónustu á Vesturlandi.

Það hillir loksins í gerð Arnarnesvegar og verður það mikil samgöngubót. Ég fagna því að sjá líka Sundabraut færða inn á samgönguáætlun. Það á auðvitað eftir að útfæra það nánar hvort hún geti orðið arðbær framkvæmd. Ég heyri enn mjög miklar efasemdir og misvísandi sjónarmið um það frá þeim sem gerst til þekkja.

Að síðustu vil ég sérstaklega fagna því að ný ríkisstjórn hafi haldið við þeirri áherslu á almenningssamgöngur og á göngu- og hjólreiðastíga sem við settum inn í samgönguáætlun. Það skiptir mjög miklu máli, það eru mikil lífsgæði sem felast í einstæðu hjólastíganeti sem við búum við á höfuðborgarsvæðinu. Engin af nálægum borgum býr yfir öðrum eins auði að menn geti hjólað óhindrað í tugi eða hundruð kílómetra án þess að þurfa að fara yfir götu. Það er mjög mikilvægt að rækta þennan auð og gera fólki kleift að nýta þessar samgönguleiðir, (Forseti hringir.) ekki bara í tómstundum heldur líka til og frá vinnu.