143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[21:57]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir ræðuna. Ég tók eftir því í ræðu hans að hann talaði um ný göng í Garðabæ, sem er dálítið skemmtileg pæling og áhugaverð. Ég held að það sé nokkuð sem sé virkilega þess virði að skoða. Sennilega voru á sínum tíma gerð mistök í Kópavogi þegar farið var af stað og gerð gjá í gegnum Kópavogshálsinn í staðinn fyrir að gera einmitt göng eins og hafa síðan raungerst með yfirbyggingum yfir Kópavogsgjána. Því held ég að þetta sé algjörlega skoðunar virði.

Ég tek einnig undir með þingmanninum varðandi það að nú eigi loksins að setja peninga í Kjósarskarðsveg. Það er býsna mikilvægt verkefni og hefur lengi verið á áætlun eða alla vega í kortunum að gera og skiptir miklu máli líka í umferðaröryggislegu tilliti að vegurinn sé í lagi.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann um Arnarnesveginn. Nú stendur til að setja fjármuni í Arnarnesveginn að Fífuhvammsvegi, sem er í rauninni bara hálf framkvæmd. Ef ég les áætlunina rétt þá verður alla vega til 2017 tengingin yfir á Breiðholtsbrautina ekki kláruð, sem raungerir alla framkvæmdina og gerir hana að því sem hún á að verða á endanum. Ef að líkum lætur verður þetta aldrei klárað fyrr en í fyrsta lagi 2020. Það er að vísu ekkert ofboðslega langt inn í framtíðina, en mig langar að heyra sjónarmið þingmannsins á því hvort hann sé tilbúinn að berjast með öðrum þingmönnum kjördæmisins fyrir því að flýta því að þessi tenging verði gerð.