143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[22:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Einmitt. Og þess vegna er mjög mikilvægt að fjárfestingar sem metnar eru arðbærar og gjaldeyrisskapandi, og hafa verulega jákvæð hagvaxtaráhrif, eins og áformaðar framkvæmdir fyrir norðan — uppbygging iðjuvers og orkuvera til framleiðslu rafmagns inn á það svæði, opnunin á nýju iðnaðarsvæði, sem verður vonandi í framtíðinni staðsetningarvalkostur fyrir fleiri aðila — komist af stað. Ef því fylgja umtalsverð þjóðhagsleg og jákvæð áhrif þá tel ég, þrátt fyrir að ég þekki mjög vel glímuna við ríkisfjármálin, að einmitt slík tækifæri eigi menn að nýta. Og til þess að orðið geti af þessum fjárfestingum þarf slíka innviðafjárfestingu fyrir norðan.

Ég vona svo sannarlega að hv. þingmaður sé ekki að tala hér gegn þessum framkvæmdum og honum finnist kannski á bætandi hvað Húsavík snertir þessa dagana, að menn sjái ofsjónum yfir því þó að lagt verði í þessa fjárfestingu til að þarna geti skapast framtíðarvalkostur í staðsetningu fyrir lítil og meðalstór iðnfyrirtæki þar sem orkan er til staðar í uppsveitum Þingeyjarsýslu, og hefur verið áformað mjög lengi.

Varðandi Vaðlaheiðargöng þá skiptir það máli, og svo sem hitt líka, hvort ríkissjóður hefði til hliðar og í viðbót við þessar mörkuðu tekjur komið með fjármuni í þessa fjárfestingu. Það hefur víst áhrif, hv. þingmaður. Þá er samgönguáætlunin alveg ótrufluð af því eins og hún er í tilviki Vaðlaheiðarganga. Það eina sem ríkið er þar með beinum hætti að leggja af mörkum er sinn hluti af hlutafénu í félagið, sem stendur fyrir framkvæmdinni, tekur lánin og borgar þau síðan upp með veggjöldum. Það hefur bara engin áhrif á framvindu annarra verkefna sem fjármögnuð eru með hefðbundnum hætti úr ríkissjóði beint eða úr Vegasjóði beint.