143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[22:25]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekkert að tala um að ég sjái ofsjónum yfir þessum framkvæmdum. Ég var einungis að benda á að ég hefði viljað sjá aðra forgangsröðun á málinu. Ég tel að Dýrafjarðargöng séu mjög jákvæð fyrir þjóðfélagið og séu arðsöm, sérstaklega fyrir þessar brothættu byggðir á Vestfjörðum. Ég held að það sé leitun að framkvæmdum í þessari vegáætlun, og nánast hvaða framkvæmdum sem er, sem hafa ekki jákvæð áhrif á þjóðfélagið.

Varðandi Vaðlaheiðargöngin þá er mörgum ljóst að þetta er bara ekkert öðruvísi en í venjulegum fyrirtækjarekstri, hvort það er skuld eða ábyrgð í efnahagnum, þá skiptir það engu máli. Það er einhvern veginn þannig. Ef þú ert í ábyrgð fyrir einhverju þá verðurðu að standa klár á því að geta borgað það, þannig að óhjákvæmilega truflar það aðrar lánveitingar. Ég sé engan mun á því, það er bara nafnið, og þetta er allt sami sjóðurinn. Hvort þetta er tekið úr vegáætlun eða af sérstökum ráðstöfunum eða hvað við köllum það, það skiptir engu máli, þetta er allt saman sami sjóðurinn.