143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[22:51]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við ættum ekki að efast um, a.m.k. geri ég það ekki, að það hafi verið hárrétt stefnubreyting sem var tekin hér um að leggja aukna áherslu á almenningssamgöngur, hjólreiðarstíga og aðra samgöngumáta heldur en bara einkabílinn og risavaxin mislæg gatnamót á höfuðborgarsvæðinu. Það væri stórslys að hverfa frá þeim áherslum. Við eigum þvert á móti að styðja áfram að þeirri þróun.

Það er eitt sem mig langar að inna hæstv. ráðherra aðeins betur eftir, og það er einfaldlega af því að ég er ekki uppteknastur af einhverjum þröngum kjördæmissjónarmiðum í þessu máli heldur stöðu málaflokksins í heild. Það er alveg ljóst að það eru tekjurnar sem munu ráða mestu um það hvort við komumst áfram á næstu árum, t.d. með almennar vegaframkvæmdir, og ég fæ ekki betur séð en eina leiðin til að sækja eitthvað verulega fram í þeim efnum sé að leyfa mörkuðu tekjustofnunum að hækka sem hlutfall af skattlagningu á umferðina. Þeir hafa dregist aftur úr, ekki fylgt verðlagi með sama hætti og sá hluti umferðarskattsins sem fer í ríkissjóð. Það bera að sjálfsögðu margir ábyrgð á því en ef við teljum að það séu möguleikar til þess að komandi árum að leyfa til dæmis mörkuðu tekjunum, sérstaka bensíngjaldinu, að taka á sig meiri verðlagshækkanir en hinu almenna þá þarf að gera það, það er alveg ljóst. Þess vegna ætti til að mynda að snúa þessu við í frumvarpinu sem núna er í efnahags- og viðskiptanefnd um lækkanirnar til að koma til móts við aðila vinnumarkaðarins og láta lækkanirnar koma niður á almennu gjöldunum en ekki hinum sérmerktu tekjum Vegagerðarinnar.

Varðandi innanlandsflugið og þær innanlandsflugleiðir sem njóta ríkisstyrkja vil ég leggja á það áherslu við hæstv. ráðherra að því verði hraðað eins og kostur er að komast til botns í því máli. Auðvitað vonaði ég að það mætti lesa textann bókstaflega sem þarna stendur, að það að þessar leiðir verði boðnar út þýði að það haldi áfram. En það er mjög bagalegt fyrir íbúana, fyrir svæðin og fyrir flugrekstraraðila (Forseti hringir.) að mjög stuttur tími er eftir af gildandi samningi. Við verðum komnir inn á árið þegar þessir samningar renna út og það verður í síðasta lagi fyrir mitt ár að vera kominn botn í málið og helst útboð að fara af stað.