143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

flutningur netöryggissveitar til ríkislögreglustjóra.

520. mál
[23:07]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ástæðan er sú, líkt og ég kom mjög ítarlega inn á í minni ræðu hér áðan, að eftir skoðun sem farið hefur fram af hálfu innanríkisráðuneytisins og annarra aðila er það sameiginlegt mat allra þeirra sem að verkefninu koma að ekki sé farsælt að netöryggissveitin sé vistuð hjá Póst- og fjarskiptastofnun með sama hætti og verið hefur. Ég rakti það ágætlega í ræðu minni að talið er að það fari ekki saman til frambúðar að Póst- og fjarskiptastofnun sinni þjónustu og hafi um leið eftirlit með sömu aðilum. Að auki er það þannig í öllum nágrannaríkjum okkar sem við höfum skoðað ítarlega að sá nýi veruleiki sem við stöndum frammi fyrir, sérstaklega í netmálum og innviðamálum þeim tengdum, kallar á að slíkar varnir séu hluti af almannavarnakerfi landsins sjálfs, að þær séu ekki vistaðar í öðrum stofnunum en þeim sem sjá um almannavarnir. Þess vegna er tillagan sú að verkefnið, netöryggissveitin, flytjist frá Póst- og fjarskiptastofnun til almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra þannig að það verkefni sé hluti af slíkri stórri samhæfingu og sé liður í því sem kalla mætti almannavarnauppbyggingu í landinu. Það er ástæðan.

Einnig var það mat manna eftir þann brest sem varð hjá Vodafone á síðasta ári að gera þyrfti að þessar breytingar og að það þyrfti að gera þær áður en við gengjum lengra með það starf. Það breytir hins vegar engu um það að ákveðin sérfræðiþekking er eðlilega innan Póst- og fjarskiptastofnunar og þess vegna þeir aðilar er því tengjast áfram í ákveðnum stýrihópi sem hefur það verkefni að þróa það. En markmiðið er alveg skýrt, það er að tryggja aukið öryggi og tryggja að þessar varnir séu með sama hætti og margar aðrar varnir hluti af almannavarnakerfi landsins.