143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

flutningur netöryggissveitar til ríkislögreglustjóra.

520. mál
[23:13]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Ég er á svolítið svipuðum slóðum og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson og staldra kannski fyrst og fremst við það sem kemur fram í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins. Yfirskrift frumvarpsins er sannarlega einföld: Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna flutnings netöryggissveitar til almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Þetta er nokkuð afgerandi. Síðan þegar maður fer að lesa frumvarpið kemur fram að það bætist ný málsgrein við lög um fjarskipti þar sem forstjóra Póst- og fjarskiptastofnunar er heimilt með leyfi ráðherra að fela öðrum hæfum aðilum að framkvæma verkefnin. Þá kemur fram í athugasemd með greininni að í stað þess að kveðið sé á um skyldu Póst- og fjarskiptastofnunar til að starfrækja þessa starfsemi er kveðið á um að þessi sveit sé starfrækt einhvers staðar og opnað fyrir þann möguleika að slík sveit sé rekin af almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Í raun og veru er ekki samræmi milli þess og fyrirsagnar frumvarpsins þar sem um er að ræða flutning til almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra vegna þess að frumvarpið sem slíkt kveður ekki á um þann flutning heldur heimilar hann, þ.e. opnar þann möguleika að slík sveit sé rekin af almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, en í 2. gr. kemur bara fram að breytingar á lögunum heimili stofnuninni að úthýsa verkefnum netöryggissveitar. Þetta er dálítið óljóst í frumvarpinu.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún sjái fyrir sér einhverja aðra möguleika en samkvæmt orðanna hljóðan gæti annar aðili en ríkislögreglustjóri tekið verkefnið að sér. Er það vegna þess að fyrirsögnin er ekki lýsandi eða of þröng og það gætu einhverjir aðrir aðilar gert þetta? Ég veit að þetta hljómar eins og einhver teoría, eða er það vegna þess að (Forseti hringir.) það þarf að skýra lagatextann betur í vinnslu nefndarinnar?