143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

flutningur netöryggissveitar til ríkislögreglustjóra.

520. mál
[23:15]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Kannski erum við í ráðuneytinu búin að sitja of lengi yfir verkefninu með það að markmiði að koma því á þennan lokastað. Eins og ég sagði áðan sátu lögfræðingar ráðuneytisins talsvert yfir því hvernig ætti að gera þetta og það voru nokkrar leiðir sem til greina komu. Verkefnið er að flytja netöryggissveitina til almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Nú getum við tekist á um hvort nákvæmlega þetta orðalag rúmar það, en talið var af embættismönnum ráðuneytisins að það gerði það. Ég geri engar athugasemdir við að þingnefndin skoði þetta ef menn telja að breyta þurfi einhverju orðalagi. Hins vegar voru, eins og ég sagði áðan og ég árétta það, nokkrar leiðir færar. Sú leið var farin til að taka málið fljótt og örugglega í gegn og orðalagið er mjög varkárt að því leyti að talað er um að Póst- og fjarskiptastofnun sé heimilt að úthýsa verkefnunum. Af því að spurt var hvort menn gætu úthýst verkefnunum eitthvað þá er í frumvarpinu og í öllum breytingunum mjög skýrt hvert það er að fara. Það er ekki hægt að túlka þessa grein þannig að Póst- og fjarskiptastofnun geti úthýst þessu verkefni hvert sem er vegna þess að frumvarpið gengur klárlega út á að verkefnið fari til almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

Ég geri ekki athugasemdir við að þingnefndin skoði það en þetta er verkefnið samt sem áður, þótt ég dragi enga dul á að hægt er að fara aðrar leiðir. Það væri hægt að vinna verkefnið öðruvísi. Við völdum þessa leið, ekki einungis vegna þess að málið krafðist þess að við gætum flutt það í einu frumvarpi sem er einfaldara, heldur líka vegna þess að við viljum á þessum bernskudögum netöryggissveitarinnar, ef við getum orðað það þannig, halda ákveðinni tengingu við Póst- og fjarskiptastofnun. Við vildum ekki rjúfa þau tengsl alveg. Það er ákveðin hugsun í því. Það var talið mikilvægt af þeim sérfræðingum sem komu að verkefninu hjá Póst- og fjarskiptastofnun og við vildum fallast (Forseti hringir.) á það.