143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

staðan á leigumarkaði.

[10:37]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sem ráðherrann segir að verið sé að vinna áfram ýmsar af þeim hugmyndum sem unnið hefur verið að undanfarin ár og miða að því að jafna stöðu leigjenda og eigenda. Vandinn er hins vegar sá að nýjustu aðgerðir ríkisstjórnarinnar ganga í þveröfuga átt. Það eru engin efnisrök fyrir því að láta leiðréttinguna miklu á verðtryggðum skuldum ekki ná til félaga sem eru lokuð leigufélög, eins og t.d. hússjóður Öryrkjabandalagsins sem getur ekki greitt út arð. Af hverju eiga leigjendur þar, sem er það fólk sem hefur minnst milli handanna í landinu, að sitja uppi með verðtryggðar skuldir en ekki þeir sem tóku lán í eigin nafni til að kaupa sitt eigið húsnæði? Þessi forgangsröðun ríkisstjórnarinnar gengur þvert gegn því sem ráðherra segir að verið sé að vinna að í ráðuneytinu; að jafna stöðu og vinna með lausnir sem miða að því að leigumarkaðurinn sé raunverulegur valkostur.

Ég vil gjarnan heyra meira um afstöðu ráðherrans til þessa og hvort hún er tilbúin til að segja það skýrt að (Forseti hringir.) hún vilji að stuðningurinn sé jafnaður í einu kerfi húsnæðisbóta og binda (Forseti hringir.) þannig saman kerfi vaxtabóta og húsaleigubóta.