143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

flýtimeðferð í dómskerfinu.

[10:42]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég átti svo sem von á að fá þessa fyrirspurn jafnvel fyrr þannig að ég þakka hv. þingmanni fyrir hana.

Hvað flýtimeðferðina varðar er ríkisstjórnin nú þegar búin að samþykkja lög þess efnis. Ég held að allur þingheimur hafi fagnað því sérstaklega að opnað hefur verið fyrir möguleika á því að tryggja flýtimeðferð sem varðar verðtryggingu og gengistryggingu, tryggingamálin. En hvað varðar það sem hv. þingmaður nefndi er staðreyndin einfaldlega sú að sú sem hér stendur er félagsmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna, hefur stutt hagsmunasamtökin sem ráðherra og sem einstaklingur fjárhagslega og er með verðtryggð lán. Það væri því að mínu mati einfaldlega ekki viðeigandi að ég færi að beita mér fyrir því að hafa einhver áhrif á það hvernig Íbúðalánasjóður telur best að haga þessum málum.

Ég vil hins vegar leggja áherslu á að mjög mikilvægt er að fá efnislega afstöðu í málinu. Ég treysti lögfræðingum Íbúðalánasjóðs og Íbúðalánasjóði sjálfum og íslenskum dómstólum fyrir því að taka rétta ákvörðun og haga málum eins vel og hægt er hvað þessi mál varðar.

Ég vil líka minna á að þetta er ekki eina málið sem snýr að lögmæti verðtrygginga. Það eru tvö önnur mál í gangi gagnvart öðrum fjármálastofnunum. Það er líka mál í gangi gagnvart EFTA-dómstólnum auk þess sem mér skilst að Íslandsbanki hafi tekið ákvörðun um að fara með mál sem snýr að úrskurði Neytendastofu fyrir úrskurðarnefnd neytendamála. Við munum því væntanlega á næstu missirum fara að sjá niðurstöður í þeim málum og ég tel að það verði mjög áhugavert fyrir þingheim að sjá þær niðurstöður.