143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mengun frá Hellisheiðarvirkjun.

[10:54]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina spurningum og eiga samtal við hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra. Mengun frá gufuaflsvirkjunum hefur verið mikið í umræðunni undanfarin missiri og vangaveltur hafa verið um hvort og hvernig tiltekin mengun og tilteknar lofttegundir gætu verið skaðlegar fyrir fólk og umhverfi. Þetta kemur ekki á óvart því að í austlægum áttum finnum við íbúar höfuðborgarsvæðisins mjög fyrir því að stórar virkjanir eru í nokkurra tuga kílómetra fjarlægð frá þéttbýlustu svæðum landsins.

Hér í borginni finnum við oft lykt frá virkjununum en styrkur H2S, eða brennisteinsvetnis, fer samkvæmt nýjustu mælingum ekki yfir heilsuverndarmörk eða tilkynningarmörk í borginni. En eins og þingmönnum er kunnugt um er byggð og starfsemi mun nær virkjununum.

Í Lækjarbotnum er rekinn leikskólinn Ylur og Waldorfskólinn sem er grunnskóli. Mælingar þar sýna að brennisteinsvetni er miðað við reglugerðarmörk í dag mjög nálægt tilkynningarskyldum daggildum og flest bendir til að þann 1. júlí þegar reglugerðarmörk verða hert niður í 50 míkrógrömm á rúmmetra muni þó nokkra daga á hverju ári vera farið yfir reglugerðarmörkin.

En mörkin fyrir langtímamengun, eða styrk H2S í andrúmslofti, eru 5 míkrógrömm og meðaltalsmengun þann tíma sem hefur verið mælt í Lækjarbotnum er nær 6 míkrógrömmum á rúmmetra. Það er því nokkru hærra en ásættanlegt er. Séu hins vegar skoðuð meðaltalsgildi þann tíma sem börnin eru raunverulega í Lækjarbotnum, þ.e. yfir vetrartímann, eru mörkin nær því að vera í kringum 8 míkrógrömm eða um 60% yfir mörkum. Þetta er alvarlegt þar sem þolendurnir eru börn og þótt lítið sé vitað um raunverulegt heilsutjón af völdum H2S vitum við þó að venjulega er það þannig að ef þolendurnir eru börn eru meiri líkur á skaða. Orkuveitan hefur sótt um undanþágur frá hertum reglugerðarmörkum og ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig ráðuneyti hans hyggst taka á því máli, þ.e. hann og stofnanir hans. Mun hæstv. ráðherra bregðast við málinu á einhvern hátt? (Forseti hringir.) Ég vil heyra svör ráðherra við því.