143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mengun frá Hellisheiðarvirkjun.

[11:00]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt, og það er nokkuð merkilegt, að áhrifa af útblæstri frá Hellisheiðarvirkjunum gætir meira á þessu svæði, Norðlingaholti og eins í Lækjarbotnum, en til að mynda í Hveragerði, svo dæmi sé tekið, sem er miklu nær og er þekkt hverasvæði. Það er nokkuð merkilegt. Það er líka nokkuð merkilegt að fyrir nokkrum árum voru menn með svifryksmæli í Alviðru í Ölfusi sem átti að vera núllstillir fyrir landið og höfuðborgarsvæðið en hann var að lokum tekinn niður vegna þess að gildin þar voru svo skelfilega há, þau voru mörgum sinnum hærri en nokkurn tíma í Reykjavík. Þá var hann bara tekinn niður og færður. Í landinu okkar eru auðvitað ýmsar afleiðingar af því að við búum á eldgosasvæði með jökulvötnum þar sem bæði er svifryk og brennisteinsvetni og annað sem er kannski í meira magni í umhverfinu en bakgrunnsmengun, getum við kallað hana. Það er líka rétt hjá hv. þingmanni að mjög mikilvægt er að gæta varúðar í slíkum málum og það hyggjumst við gera.