143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

efnahagsstefnan og EES-samningurinn.

[11:03]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég tel ástæðu til að þakka hv. þingmanni fyrir góða spurningu. Ég veit að það hefur glatt þingmenn að sjá hv. þingmann bera fram málefnalega og tiltölulega skýra spurningu og ég skal leitast við að svara henni á sama hátt.

Svarið er já. Planið gengur upp og ég geri ekki ráð fyrir að það komi hv. þingmanni á óvart að það sé mat mitt. Svarið við spurningunni um EES-samninginn og íslensku krónuna er auðvitað að menn gera ekki ráð fyrir að íslenska krónan verði í höftum um ókomna framtíð. Það er að vísu töluvert stórt mál eftir óleyst sem er snjóhengjan og slitabú gömlu bankanna en þó eru líkur á því að einhver hreyfing sé að komast á þau mál og hægt verði að ráðast í afléttingu hafta, í skrefum væntanlega, í fyrirsjáanlegri framtíð.

Sú leið sem við getum alls ekki leyft okkur að fara og væri einhvers konar efnahagsleg dauðagildra er leið sem meðal annars er kynnt er til sögunnar í nýrri skýrslu Alþjóðamálastofnunar háskólans. Hún er að Ísland færi aftur inn í einhvers konar AGS-prógramm og tæki gríðarhá lán hjá Evrópska Seðlabankanum til að borga út meðal annars þá erlendu kröfuhafa sem eru fastir með kröfur hér innan lands og reyna síðan að vinna landið út úr þeim skuldum á næstu árum og áratugum til að geta tekið upp evru, þ.e. taka evrur að láni hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópska seðlabankanum, borga út kröfuhafana og skilja almenning eftir með skuldirnar. Það er plan sem gengur ekki upp.