143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[11:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek eftir þeim athugasemdum sem hv. þingmaður gerir við þá fyrirætlun ráðherrans að flytja einn flokk framkvæmdanna til sveitarfélaganna og þakka hv. þingmanni fyrir ágæta yfirferð yfir málið þótt tæknilegt sé.

Þingmaðurinn nefndi að það gæti skapað þrýsting í nærsamfélaginu á sveitarfélögin varðandi einstakar framkvæmdir sem gæti verið óheppilegur. Ég get út af fyrir sig tekið undir áhyggjur af því og finnst við fyrstu sýn að betur færi á því að halda sig við hina upphaflegu gerð málsins eins og það kom inn á síðasta vetri og hvet umhverfis- og samgöngunefnd til að fara vel yfir það. Þá spyr maður sig auðvitað þegar um svona verkefnisflutning til sveitarfélaganna er að ræða hvort það hversu mörg og smá sveitarfélög eru með, geri ekki slíkan tilflutning erfiðari en ella, hversu vel þessi sveitarfélög mörg hver eru í stakk búin til að taka að sér verkefni eins og þetta.

Nú er það þannig til dæmis í einu nágrannalanda okkar að þar ræða menn að binda lágmarksstærð sveitarfélaga með lögum við 20 þúsund íbúa. 20 þúsund íbúar eru náttúrlega bara nokkur stærstu sveitarfélögin hér á landi. Hér eru gríðarlega mörg sveitarfélög með býsna fáa íbúa og þrátt fyrir góðan vilja og gott starf þeirra sem þar fara fyrir í sveitarstjórnum eru takmarkanir fyrir því hversu mikil verkefni þau sveitarfélög geta tekið að sér. Teldi þingmaðurinn það koma frekar til greina að færa verkefni eins og þetta til sveitarfélaga ef við hyggjum að því að hafa færri en stærri og öflugri sveitarfélög í landinu?