143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[11:42]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið. Hann kom því á framfæri að ESA hefði ekki gert athugasemdir við þessa útfærslu og hún væri líka tíðkuð annars staðar, til að mynda í Bretlandi. Mér finnst mjög mikilvægt að fá það inn í umræðuna. Þær áhyggjur sem ég hef hreinlega og ég fór yfir hér í ræðu minni — það er þess vegna sem ég mun óska eftir því að nefndin muni fara yfir það í sinni vinnu — eru hvort eitthvert sérstakt hagræði sé af því að hafa þetta ekki allt á einum stað, hafa þetta ekki allt hjá Skipulagsstofnun. Maður ímyndar sér við fyrstu sýn að meiri hagræðing gæti verið í því að færa þetta út til hvers og eins sveitarfélags. Hins vegar velti ég því fyrir mér hvort hætta sé á því að um sé að ræða framkvæmdir þar sem upp geta komið miklar deilur og þar sem nálægðin verður fremur til trafala en hitt. Það er eitthvað sem kannski er ekki fyrirsjáanlegt en eigi að síður eru þetta þau sjónarmið sem mér finnst eðlilegt að nefndin skoði sérstaklega.

Eins og hv. þm. Ólafur Þ. Gunnarsson sagði í ræðu sinni var búið að fara yfir stóran hluta frumvarpsins. Það sparar okkur heilmikinn tíma. Þetta er breytingin þannig að ég reikna þá með því að við gefum okkur þá tíma í að skoða þessi atriði sérstaklega í tengslum við hana.