143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[12:03]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé afar mikilvæg umræða og þegar ég tala um jafnræði þá er ég ekki bara að tala um jafnræði milli sveitarfélaga. Ég er líka að tala um jafnræði íbúa í mjög litlu sveitarfélagi þar sem um er að ræða gríðarlega mikið návígi, þar sem þeir sem um véla eru mjög nánir, samstarfsmenn, ættingjar o.s.frv., þar sem er enn þá mikilvægara að sérstaklega sé litið til þess að jafnræði sé ekki fyrir borð borið og ekki síst vegna þess að kæruleiðir, eða leiðir til að beina áhyggjum sínum í úrskurðarfarveg, eru kannski langar og ekki innan seilingar eða jafnvel eru menn í þeirri stöðu að yppta öxlum. Nefna má fjöldamörg dæmi í þeim efnum.

Við hv. þingmaður deilum þeirri stöðu að verða til sem stjórnmálafólk á sveitarstjórnarstiginu. Við þekkjum því umræðuna þeim megin frá líka. Það er auðvitað, eins og kemur fram hjá hv. þingmanni, gríðarlega mikilvæg meginregla að íbúarnir hafi eitthvað um sitt nærsamfélag eða nærumhverfi að segja en um leið er mikilvægt að þessar meginreglur séu ekki fyrir borð bornar. Þetta er stöðugur línudans og á síðasta kjörtímabili völdum við hina leiðina. En þessi er valin hér og ég vænti þess að nefndin muni skoða það með gagnrýnu hugarfari.

Mig langar þá líka að velta upp því sem komið hefur fram í umræðunni sem er sú dæmalausa staða á síðasta kjörtímabili þegar svo virðist sem mál hafi verið stöðvuð af meinbægninni einni saman þegar um er að ræða mál sem er samstaða um að öllu öðru leyti en því sem varðar kannski eina tiltekna lagagrein.