143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[12:08]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, með síðari breytingum. Eins og hefur komið fram bæði í ræðum hæstv. ráðherra og annarra þingmanna og andsvörum þá er hér um að ræða endurflutt mál, lítið sem ekkert breytt en þó að því er varðar ákvörðun um matsskyldu framkvæmda í flokki C.

Mikilvægt er að ákvörðunin um matsskyldu framkvæmda standist skoðun rétt eins og allar aðrar ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum. Eins og hér hefur komið fram er um að ræða tæknilega og ítarlega löggjöf, þunga að mörgu leyti. Ég hef stundum verið þeirrar skoðunar að allt lagaumhverfi umhverfis- og skipulagsmála, sem er innflutt nánast óbreytt, sé fremur framvindulöggjöf, ef svo má að orði komast, en efnislöggjöf. Hvað á ég við með því? Ég er að segja það að löggjöfin kveði á um það hvernig málinu skuli vinda fram í kerfinu, hvað eigi að gera fyrst og hvað eigi að gera svo, hvaða fundi skuli halda, hvaða kynningarfresti skuli uppfylla, hvernig skuli auglýsa og hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að frestur teljist nýttur með réttum hætti o.s.frv.

Við þekkjum mýmörg dæmi þess að efasemdir eru um að skipulagslöggjöfinni hafi verið framfylgt og við erum með heilar kærunefndir, áður kærunefnd skipulags- og byggingarmála en núna kærunefnd umhverfis- og auðlindamála, sem hafa þurft að láta sig varða gríðarlega margar ákvarðanir sem menn hafa ekki verið ásáttir um að hafi verið eins og best væri á kosið.

Af hverju staldra ég sérstaklega við það að hérna sé um framvindulöggjöf að ræða, þ.e. reglur að löggjöf? Það er vegna þess að stundum hef ég haft efasemdir um að þessi löggjöf bíti nóg. Við höfum auðvitað innleitt hana eftir okkar ferlum og reglum en stundum hefur mér fundist, og þá tala ég sem umhverfis- og náttúruverndarsinni, sem löggjöfin um mat á umhverfisáhrifum bíti til þess eins að fresta ákvörðun sem þegar liggur fyrir. Við þekkjum ótal mörg dæmi um það þegar sagt er: Það er búið að umhverfismeta þetta og þá megum við gera þetta.

Matslögin eru fyrst og fremst sett fram með það í huga að fyrir liggi allar upplýsingar, þ.e. að þekking sé næg til að taka upplýsta ákvörðun en ekki síður til að bregðast við því álagi á umhverfi og náttúru sem framkvæmdin hefur í för með sér. Því miður hefur raunin oftar en ekki verið sú að ákvörðun er tekin áður en niðurstaða umhverfismats liggur fyrir. Þó að við séum jafnvel með verkfæri í löggjöfinni til að leggja upp í sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum tengdra framkvæmda, eins og til að mynda virkjun raflína og síðan einhvers konar stóriðju, þá gildir einu þótt slíkt sameiginlegt mat sýni fram á gríðarlega mikil umhverfisáhrif og meira að segja er það stundum þannig að áhrifin eru svo mikil að þau eru óbætanleg, þau eru óafturkræf, þau eru þeirrar gerðar að það má jafnvel velta því fyrir sér hvort það sé verjandi að leggja upp í framkvæmdirnar. Samt sem áður dugar matið eitt og sér ekki til að snúa ákvörðuninni við. Þetta er að mínu mati mjög mikið umhugsunarefni vegna þess að þetta er þung og umfangsmikil löggjöf sem útheimtir gríðarlega mikla vinnu, mikla upplýsingasöfnun, mikil fundahöld, miklar rannsóknir o.s.frv. en löggjöfin er ekki eins öflug og hún gæti verið ef hún væri þannig sett fram að hlutverk hennar væri að tryggja það að náttúran nyti vafans. Hún tryggir það ekki. Hún tryggir í raun aðeins að náttúran hafi rödd, þ.e. það eru dregnar fram þær áhyggjur sem fyrir hendi eru án þess að það sé endilega tryggt að við þeim verði brugðist.

Við þekkjum meira að segja dæmi um stórar framkvæmdir þar sem farið hefur verið í upphaflega áformaða framkvæmd þrátt fyrir að umhverfismatið sé svo alvarlegt að skaðinn verði ekki bættur. Ég vil þá nefna þverun Gilsfjarðar þar sem tekin var ákvörðun um að fórna náttúru viðkomandi svæðis þrátt fyrir að menn vissu og sæju fyrir að þarna yrði um að ræða það mikla breytingu á lífríki og náttúru fjarðarins og ekki yrði snúið til baka. Það var gert við einhvers konar hagsmunamat sem snýst um fjarlægðir, vegalengdir, kostnað, samfélagsþætti og allt það.

Þetta er mér sérstaklega ofarlega í huga í kjölfarið á síldardauðanum í Kolgrafafirði þar sem menn freistuðu þess að beina sjónum sérstaklega að því mati sem lá til grundvallar þegar tekin var ákvörðun um að þvera firði. Stundum er brúarhafið haft mjög stutt í sparnaðarskyni í staðinn fyrir að hafa það langt og uppfyllingar eru það miklar að vatnsskiptin verða mun minni en fyrir þverunina. Þetta á ekki við í Kolgrafafirði þó að brúin sé afar stutt vegna þess að þar er gert ráð fyrir að vatnsskiptin séu óbreytt en þau eru hins vegar á allt öðrum stað en var fyrir þverun. Við höfum í raun ekki enn þá fengið svar við því hvort við séum þarna að taka sambærilega áhættu á fleiri fyrirhuguðum brúarstæðum, til að mynda við Breiðafjörð.

Varðandi þessa þungu og tæknilegu löggjöf tel ég skipta miklu máli að ákveðið trúnaðarsamband sé, ef svo má að orði komast, milli löggjafans og almennings. Ég held að almenningur telji að lög um mat á umhverfisáhrifum séu vörn fyrir náttúruna og nægilega mikil vörn fyrir náttúruna til að ekki verði farið í framkvæmdir án þess að hún sé varin. Ég vil árétta það og ítreka að auðvitað eru mjög mörg dæmi um að ráðist sé í mjög yfirgripsmiklar og kostnaðarsamar mótvægisaðgerðir. Þetta hefur verið mér mikið umhugsunarefni og það varð mér skóli þegar ég sjálf gegndi embætti umhverfisráðherra að átta mig á þessari stöðu.

Einn þáttur sem við höfum lítið rætt varðar ákvörðun um matsskyldu framkvæmda í vægasta flokknum, ef svo má að orði komast, um að sú ákvörðun verði í höndum sveitarfélaga. Við höfum rætt hér þætti aðeins í andsvörum sem varða nærþrýsting og möguleika á því að sjónarmið um jafnræði og vandaða málsmeðferð verði fyrir borð borin. Við höfum hins vegar ekki rætt með hvaða hætti Árósasamningurinn spilar saman við þessa löggjöf. Mér finnst það umhugsunarefni og eitthvað fyrir nefndina að skoða sérstaklega, þ.e. sá hluti Árósasamningsins sem varðar gagnsæi og aðkomu almennings við forsendur ákvarðanatöku og ákvarðanatökuna sjálfa. Það kann nefnilega að vera meiri hætta á því að þeir hagsmunir séu í uppnámi þegar um er að ræða nærsamfélagið en fjærsamfélagið vegna þeirra þátta sem hér hafa verið ræddir og lúta að málsmeðferðinni sérstaklega. Er almenningur í einhverjum tilvikum í sterkari stöðu til að vera upplýstur nákvæmlega um ferli málsins eða að sumum leyti í veikari stöðu vegna þess hversu smá og fámenn sum sveitarfélög eru og er þá meiri hætta á því að þessara meginreglna sé ekki gætt?

Svo verð ég að játa það í þessari umræðu að ég átta mig ekki alveg á því hvernig Árósasamningurinn spilar inn í ákvarðanatöku og svona ferli á sveitarstjórnarstiginu. Við vitum náttúrlega hvernig þessu er fyrir komið að því er varðar ríkið og stofnanir þess því að Árósasamningurinn snýst fyrst og fremst um það. Þótt þar sé sannarlega fjallað um stjórnvöld átta ég mig ekki á því að hve miklu leyti hinar sömu reglur, að því er varðar ákvarðanir um umhverfismál, gilda á sveitarstjórnarstiginu við innleiðingu og þann lagaumbúnað sem hefur verið farið í á Íslandi. Það er nokkuð sem ég tel mikilvægt að nefndin skoði sérstaklega.

Raunar vil ég segja að á síðasta kjörtímabili var sá háttur hafður á að þetta mál eins og mörg önnur fékk ekki náð fyrir augum þáverandi stjórnarandstöðu og var ekki lokið og meira að segja gilti það um önnur mál að það var ekki einu sinni ágreiningur en þau voru samt stoppuð. Það var sérstök staða á síðasta kjörtímabili þegar slík mál voru stöðvuð með þessum hætti. Það er auðvitað rétt svo allrar sanngirni sé gætt, og það kom líka fram í ágætri ræðu hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar, að það ætti þá að vera greiðari leið fyrir okkur og fyrir nefndina hvað varðar efnisþætti frumvarpsins þó að, eins og hefur líka komið fram, hér sé þetta tiltekna atriði sérstaklega undir, þar sem vikið er í grundvallaratriðum frá því innihaldi sem lagt var fram á síðasta kjörtímabili.

Það er mikilvægt í meðferð nefndarinnar að horft sé sérstaklega til þátta er varða jafnræði og vandaða málsmeðferð, nærþrýsting og gagnsæi, Árósasamninginn og fleiri atriði. Ég vænti þess að hér eftir sem hingað til muni Samband íslenskra sveitarfélaga halda vel og með öflugum hætti á sínum hagsmunum og hagsmunum sveitarfélaganna og íbúanna í umsögn um frumvarpið. Það gildir líka um löggjafann að það er fyrst og fremst okkar að gæta að heildarhagsmunum íbúanna í landinu. Best fer auðvitað á því þegar stjórnvöld eru samstiga, bæði sveitarfélög og ríki, um að gæta þessara margþættu hagsmuna því að það gleymist stundum þegar fólk er að takast á. Eins og áður hefur komið fram hef ég verið báðum megin borðs í því, bæði sem sveitarstjórnarmaður og sem þingmaður og ráðherra. Það gleymist stundum að við erum bara þjónar almennings og erum kjörin til að ráða ráðum fyrir hönd heildarinnar og taka ákvarðanir um ráðstöfun opinbers fjár í þágu þessarar sömu heildar. Þetta er því viðfangsefni sem verður að gæta að horfa ekki á sem togstreitu milli tveggja stjórnsýslustiga heldur miklu frekar sem heildarhagsmuni íbúanna í landinu og þá fer best á því að nefndin horfi til heildarinnar en ekki bara til tiltekinna athugasemda.